Yfir 200 mál fyrir norðan

Mismikill erill var hjá lögreglu eftir landshlutum. 200 mál komu …
Mismikill erill var hjá lögreglu eftir landshlutum. 200 mál komu inn á borð lögreglunnar á norðurlandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þrátt fyrir að flestar útihátíðir helgarinnar hafi verið blásnar af sökum faraldursins var ekki lát á ferðavilja landans um helgina. Ef marka má samtal mbl.is við lögreglu var ekki heldur lát á almennri gleði landans um helgina. Á sumum stöðum á landsbyggðinni var hún jafnvel fullmikil.

Árni Páll Jóhannsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, segir ágætlega hafa gengið um helgina. „Almennt miðað við fjölda og þess háttar þá gekk þetta bara ágætlega um helgina.“

Hann segir yfir tvö hundruð mál hafa komið inn á borð embættisins um helgina. „Þetta var svona bara sambland af öllu,“ segir hann spurður af hvaða toga tilkynningarnar hafi mestmegnis verið. „Það voru þó rúmlega fimmtíu umferðarlagabrot en þetta er náttúrlega í umdæminu öllu, ekki bara bundið við Akureyri.“

Hann segir þau tuttugu hávaðaútköll sem lögreglan fékk tengjast því að skemmti- og veitingastöðum sé lokað á miðnætti. „Þá náttúrlega færist gleðskapurinn í heimahús, á tjaldsvæðin eða eins og gerðist nú um helgina, bara út á götu. Þar er fólk ekki mikið að pæla í nándarreglu og þess háttar. Metrinn verður helst til teygjanlegur þegar fólk er komið í glas.“

Hann segir lukkulegt að helgin hafi þó gengið stórslysalaust fyrir sig og miðað við allt hafi þetta gengið vel.

Einn handtekinn í gær á Bolungarvík

Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vestfjörðum, tók í svipaðan streng og kollegi hans á Norðurlandi eystra. „Þetta gekk bara ágætlega. Greinilega samt einhver hópamyndun á nokkrum stöðum og fólk ekki alltaf að viðhafa nándarreglu og þess háttar.“

Hann segir eitthvað hafa borið á hávaðakvörtunum. „Það var aðeins þarna á Bolungarvík og á Þingeyri. Það var einn handtekinn núna í nótt á Bolungarvík. Þeir voru nokkrir ölvaðir og jafnvel grunaðir um eignaspjöll,“ segir hann. 

Umferðin gekk þokkalega fyrir sig að sögn Hlyns. Þó hafi aðeins borið á ölvunarakstri, hvort sem var að nóttu til eða þá að fólk var að leggja af stað of snemma daginn eftir. Svo líkt og alltaf hafi einnig verið eitthvað um hraðakstur.

„Heilt yfir var þetta samt bara nokkuð gott. Helst bara læti á tjaldsvæðum í umdæminu, eins og gefur að skilja yfir verslunarmannahelgi.“

Mikið fjör var á tjaldsvæðinu á Þingeyri um helgina. Raunar …
Mikið fjör var á tjaldsvæðinu á Þingeyri um helgina. Raunar svo mikið að lögregla var kölluð til. mbl.is

Aldrei þessu vant rólegt á Suðurlandi 

Samtal blaðamanns við lögregluna á Suðurlandi var í styttri kantinum, en helgin var fremur róleg í umdæminu. Mikið var af fólki í bústöðum og tjaldsvæðum á svæðinu en að sögn lögreglu fór allt vel fram. Umferðin dreifðist vel um helgina og því ekki með þyngsta móti, líkt og venjan er sökum Þjóðhátíðar í Eyjum.

„Helgin fór bara vel fram hérna hjá okkur á Suðurlandi. Fyrir utan rútuslysið var helgin ekki tíðindamikil hjá okkur, flestir bara með sitt á hreinu,“ segir lögregluþjónn á Selfossi í samtali við mbl.is.

mbl.is