Á að slaka eða herða?

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir ekki hægt að segja til um …
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir ekki hægt að segja til um hvort hert verði eða slakað á sóttvarnaaðgerðum. Þó kveður við svipaðan tón víða í samfélaginu; fólk vill að aðgerðir séu byggðar á gögnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segist ekki geta sagt til um það ennþá hvort slakað verði á sóttvarnaaðgerðum þann 13. ágúst eða hvort þær verði hertar, en núgildandi takmarkanir gilda til þess tíma. 

Þá má búast við því að ríkisstjórnin taki ákvörðun um ráðstafanir vegna faraldursins að fenginni tillögu sóttvarnalæknis í samræmi við 12. gr. sóttvarnalaga, en þar segir að ráðherra ákveði að fenginni tillögu sóttvarnalæknis hvort grípa skuli til opinberra sóttvarnaráðstafana. 

Svandís býst því við að fá í hendurnar minnisblað frá sóttvarnalækni fyrir 13. ágúst, um tillögur að aðgerðum.

Kveður við svipaðan tón víða í samfélaginu

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa fundað stíft með fólki úr öllum kimum samfélagsins um næstu skref í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn. Það kveður við svipaðan tón hjá flestum; ákvarðanir verði að byggjast á upplýsingum og þekkingu, en þá er einnig ríkur vilji til að skólastarf verði með eins eðlilegum hætti og kostur er.

Eigum við von á hertum takmörkunum þann 13. ágúst eða verður slakað á? Er tímabært að segja til um það?

„Við sjáum öll að þetta eru mjög háar smittölur og það sem við erum að horfa á núna er fjöldi alvarlegra veikinda, en svo auðvitað líka álagsþol heilbrigðiskerfisins – hvað þolum við mikið af alvarlegum veikindum í kerfinu okkar? Og getum við gripið til ráðstafana hratt til þess að styrkja það þol? Þetta er meðal annars það sem er alltaf á dagskrá,“ segir Svandís.

„Þetta er þessi línudans“

Þá segir hún að það verkefni sem stjórnvöld standi frammi fyrir á næstu vikum sé að afla upplýsinga um tíðni veikinda og alvarleika þeirra, og þær upplýsingar sé verið að vinna í rauntíma, til þess að safna grunni til að byggja ákvarðanir á.

„Það er engin kúvending í því að við séum frekar að tala um alvarleika veikinda heldur en hitt heldur er breytingin í raun og veru sú að við erum með Delta afbrigðið, sem er nýtt afbrigði sem hagar sér öðruvísi og við erum bólusett samfélag, sem ver okkur betur gegn alvarlegum veikindum heldur en án bólusetningar,“ segir hún og bætir við að veiran gefi ekki alltaf þann tíma sem þarf til að vega og meta allar hliðar málsins.

„Við erum alltaf með þetta að passa upp á líf og heilsu og heilbrigðiskerfið en þó þannig að við séum ekki að leggja of mikið á samfélagið og efnahagskerfið. Þetta er þessi línudans. En við erum alltaf að leitast við að taka allar ákvarðanir út frá eins góðum gögnum og við getum orðið okkur út um á hverjum tíma.

Á von á minnisblaði frá sóttvarnalækni

Þá bendir Svandís ákvarðanir um takmarkanir vegna faraldursins ávallt byggjast á tillögu sóttvarnalæknis samkvæmt sóttvarnalögum. Þórólfur hafi hins vegar gefið út minnisblað í gær um áhættumat, þar sem hann taldi ástæðu til að fara yfir áhættu sökum faraldursins. 

Svo það er von á opinberu minnisblaði frá sóttvarnalækni fyrir 13. ágúst?

„Já, mér finnst líklegt að það gerist. Við verðum einhvern veginn að stilla saman strengi, bæði til skemmri og lengri tíma,“ segir Svandís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert