Biður starfsfólk að snúa til baka úr sumarfríi

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi.

Mikið álag er á Landspítalanum að því er fram kemur í tilkynningu sem spítalinn sendi frá sér í dag. Álagið er sérstaklega mikið á bráðamóttöku spítalans í Fossvogi.

Fram kemur að þeir sem leiti á bráðamóttöku vegna vægari slysa eða veikinda megi því gera ráð fyrir langri bið eftir þjónustu. Minnt er á að hægt sé að leita á heilsugæslustöðvar eða á læknavakt utan afgreiðslutíma heilsugæslu.

Sextán liggja inni með Covid-19

Þá biðlar forstjóri Landspítalans til starfsfólks í sumarorlofi að stytta orlof sitt ef kostur er og koma aftur til starfa á spítalann. Mönnun sé víða tæp og spítalinn sé á hættustigi.

„Landspítali hefur nú starfað í eitt og hálft ár á ýmsum óvissu- og hættustigum og þurft að krefjast mikils framlags af starfsfólki, sem hefur á löngum köflum starfað undir gríðarlegu álagi við erfiðar og fordæmalausar aðstæður,“ segir í tilkynningunni. 

Fólki í eftirliti á Covid-göngudeild hefur fjölgað jafnt og þétt að undanförnu og sextán liggja inni á spítala með Covid-19, þar af einn á gjörgæslu. 20 starfsmenn spítalans eru í einangrun og 20 í sóttkví A.

mbl.is

Bloggað um fréttina