Gæti orðið síðasta kosningasjónvarpið

Bogi Ágústsson, frétta- og dagskrárgerðarmaður Ríkisútvarpsins, verður sjötugur á næsta ári. Lögum samkvæmt láta ríkisstarfsmenn almennt af störfum við sjötíu ára afmæli sitt. 

Bogi segir í Dagmálum, spurður hvort við munum horfa á síðasta kosningasjónvarpið með honum í haust, að svo gæti vel orðið. 

Hlakkar til á hverjum degi 

„Nú er það þannig að ég hef ennþá, eftir fjörutíu og fimm eða sex ár, mjög gaman af því að fara í vinnuna. Það er lán hvers manns og konu sem lendir í því að hafa gaman af vinnunni sinni og hlakka til að fara í vinnuna. Og ég hlakka til að fara í vinnuna á hverjum degi,“ segir Bogi. 

„Mér finnst í rauninni eins og það sé verið að borga mér fyrir að sinna áhugamálum,“ bætir hann við. 

Bogi er gestur Karítasar Ríkharðsdóttur í Dagmálum. Þar ræðir hann fer­il­inn, stjórn­mál, nor­rænt sam­starf og arf­leifð, fjöl­miðla og margt fleira.

Bogi er við góða heilsu og hefur áhuga á að sinna starfi sínu áfram en á eftir að eiga samtalið við Ríkisútvarpið um möguleika til þess. 

Ríkisfyrirtæki eða ekki?

„Þá á ég eftir að eiga samtal við Ríkisútvarpið um það hvort það sé ríkisfyrirtæki eða ekki. Vegna þess að það getur ekki einn daginn sagst ekki vera ríkisfyrirtæki og síðan vísað í reglur sem gilda um ríkisstarfsmenn.

Ríkisútvarpið þóttist ekki vera ríkisfyrirtæki þegar það var krafið um upplýsingar um umsækjendur um starf útvarpsstjóra síðast. Þannig að annaðhvort er það,“ segir Bogi. 

Hann segir regluna um að opinberir starfsmenn skuli láta af störfum gamla og úrelta. 

„Eðlilegt þegar fólk var þreytt og lúið eftir harða líkamlega vinnu, en fyrir okkur sem hafa unnið þægilega innivinnu allan okkar starfsferil þá er þetta bara einhver tala,“ segir Bogi sem er ungur í anda. 

„Það er stutt síðan ég hætti að taka það til mín þegar fólk talar um æskudýrkun. Mér finnst ég bara ekkert vera gamall maður.“

hér. Kaupa má vikupassa hér.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert