Hæstiréttur hafnar málskotsbeiðni lögreglumanns

Lögreglan að störfum í Reykjavík. Myndin er úr safni.
Lögreglan að störfum í Reykjavík. Myndin er úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hæstiréttur Íslands hefur hafnað málskotsbeiðni lögreglumanns sem var dæmdur í 45 daga fangelsi fyrir líkamsárás á mann sem hafði verið handtekinn á skemmtistaðnum The Irishman Pub í nóvember árið 2019.

Landsréttur staðfesti dóm yfir manninum í maí síðastliðnum. Fram kom að hann hefði slegið manninn sem var handtekinn tvívegis í andlitið og þvingað hann í sársaukastöðu þrívegis án nægilegrar ástæðu. Meðal annars var notast við myndbandsupptökur úr myndbandstökubúnaði í lögreglubílnum.

Fram kemur í ákvörðun Hæstaréttar að leyfisbeiðandi byggi mál sitt á því að dómur Landsréttar sé rangur að efni til þar sem rétturinn hafi lagt rangt mat á myndbandsupptöku úr lögreglubifreið sem varð til þess að hann var talinn hafa gerst sekur um háttsemi sem hafi ekki átt sér stað. Einnig telur maðurinn að úrlausn Hæstaréttar myndi hafa verulega almenna þýðingu.

Jafnframt sé mjög mikilvægt fyrir hann að fá úrlausn Hæstaréttar í málinu þar sem fangelsisrefsing verði til þess að hann uppfylli ekki lagaskilyrði um að starfa sem lögreglumaður.

„Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008,“ segir í ákvörðun Hæstaréttar.

mbl.is