Morð Olofs Palmes minnisstæðast

Bogi Ágústsson, frétta- og dagskrárgerðarmaður á Ríkisútvarpinu, segir í Dagmálum frá árum sínum sem fréttaritari Ríkisútvarpsins í Kaupmannahöfn, sem sagði fréttir frá Norðurlöndum.

Bogi er gestur Karítasar Ríkharðsdóttur í Dagmálum þar sem hann ræðir fer­il­inn, stjórn­mál, nor­rænt sam­starf og arf­leifð, fjöl­miðla og margt fleira.

Fréttirnar voru skrifaðar á ritvél og svo vann Bogi sjónvarpsfréttir ytra. 

„Ég vann þær hjá Danmarks Radio. Við fengum inni með klipp og lánaða tökumenn oft og í rauninni líka hjá sænska sjónvarpinu í Malmö, þeir höfðu umframmannskap á þeim árum og voru alltaf til í að hjálpa mér. Þetta þurfti síðan bara að klippa og senda heim til Íslands,“ segir Bogi.

Dýrt að senda um gervitungl

Hann segir að fréttamyndskeið hafi verið send til Íslands í flugi. Hægt hafi verið á þessum tíma að senda í gegnum gervitungl en það væri svo dýrt að það væri ekki gert nema eitthvað mikið lægi við. 

„Þá var minnisstæðast þegar Olof Palme var myrtur í mars 1986. Þá fór ég til Stokkhólms, með fyrstu flugvél á laugardagsmorgni klukkan sjö og þá þekkti ég nánast alla í flugvélinni, alla farþegana,“ segir Bogi frá þessum eftirminnilega morgni.

Bogi segir frá því að Ómar Ragnarsson, þá fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu, hafi tekið sjálfstæða ákvörðun um að rjúfa útsendingu til að segja frá morði Olofs Palmes, áður en greint hafði verið frá morðinu í Svíþjóð. 

Ófullnægjandi skýringar

Lögreglurannsóknin á morðinu hafi verið ótrúlegt klúður, „hlutur sem mér þótti mjög ó-sænskur“, segir Bogi en Svíar hafa orð á sér fyrir að vinna af nákvæmni og hafa tök á sínum málum. 

Hann segir úrlausn ráðgátunnar um morð Olofs Palmes ennþá klúður. „Hver varð honum að bana og af hverju? Það veit enginn ennþá.“

hér. Kaupa má vikupassa hér.
mbl.is