Ný brú yfir Stóru-Laxá í útboð

Gamla brúin yfir Stóru-Laxá.
Gamla brúin yfir Stóru-Laxá. mbl.is/Sigurður Bogi

Vegagerðin hefur boðið út framkvæmdir við byggingu nýrrar brúar yfir Stóru-Laxá, sem tengir Hrunamannahrepp við Skeiða- og Gnúpverjahrepp. Sú verður tvíbreið, í fjórum höfum og 145 m löng. Með í útboðinu fylgir breikkun og bót á vegum nærri brúnni, alls um einn km, auk þess sem útbúinn verður 300 metra reiðstígur.

Í nýju brúna þarf alls 2.300 rúmmetra af steinsteypu, 270 tonn af steypustyrktarjárni og mótafletirnir eru 3.800 fermetrar. Tilboð þurfa að berast fyrir 24. ágúst nk. og má ætla að framkvæmdir hefjist þá fljótlega í kjölfarið. Verkinu á að vera lokið 30. september á næsta ári.

Núverandi brú yfir Stóru-Laxá var byggð árið 1985, er einbreið og á henni sveigur. Hefur hún því þótt vera slysagildra og heimamenn og fleiri hafa lengi þrýst á um úrbætur, sem nú eru í augsýn.

„Aðkoman er þröng og hefur valdið slysum. Eins hafa bílar lent saman á brúnni. Við höfum lengi talað fyrir nýrri brú, til dæmis við þingmenn og Vegagerðina. Þetta er mikilvæg framkvæmd,“ segir Halldóra Hjörleifsdóttir, oddviti Hrunamannahrepps, í samtali við Morgunblaðið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert