Ver seinni hálfleik lífsins á Bretaníuskaga

Ágúst Ásgeirsson lauk störfum í gærmorgun með því að flytja …
Ágúst Ásgeirsson lauk störfum í gærmorgun með því að flytja fréttir úr Morgunblaðinu yfir á fréttavefinn mbl.is. Ljósmynd/Nicole Ásgeirsson

„Ég er búinn að vera í hálfgerðu stofufangelsi í eitt og hálft ár. Ákvað að fylgja í einu og öllu ráðleggingum yfirvalda sóttvarnamála og hef því ekki getað notað góða veðrið til að leika mér. Ég er að hugsa um að leggjast í leti til að byrja með en hef svo eitt og annað til að dunda við. Ég mun leggja áherslu á útivist og líkamsrækt, einkum gönguferðir og hjólreiðar, til þess að lengja tímann í frjálsri elli,“ segir Ágúst Ásgeirsson blaðamaður sem lét af störfum hjá Morgunblaðinu í gær, en þar hefur hann starfað frá árinu 1976, síðustu sextán árin frá Frakklandi.

Ágúst æfði lengi og keppti í frjálsum íþróttum. Hann hóf einmitt störf á Morgunblaðinu 3. ágúst 1976, nokkrum klukkustundum eftir heimkomu frá Montreal í Kanada þar sem hann keppti í 3.000 metra hindrunarhlaupi og 1.500 metra hlaupi og setti Íslandsmet í báðum greinum.

Beint af Ólympíuleikum

Áður hafði hann verið í sambandi við íþróttadeild blaðsins. Sendi upplýsingar og skrifaði greinar á meðan hann var við nám í Bretlandi.

En aftur að fyrsta vinnudeginum. „Ég kom ósofinn úr fluginu og mætti til starfa á fréttadeildinni. Eftir fundinn með blaðamönnum sem Gísli J. Ástþórsson stýrði í það skiptið, vegna þess að Björn Jóhannsson fréttastjóri var í fríi, kallaði Gísli mig til sín til að fela mér verkefni. Hann dró upp úr pússi sínu um það bil tíu fréttatilkynningar og bað mig um að vinna upp úr þeim. Sagði að ef ég strikaði út öll lýsingarorð og stytti tilkynningarnar um helming gætu orðið til ágætar fréttir. Þessi leiðsögn hefur dugað mér vel,“ segir Ágúst.

Hann fór fljótlega yfir á erlendu fréttadeildina og starfaði þar við frétta- og greinaskrif í um það bil tvo áratugi. „Það var gaman að vinna í erlendu fréttunum, lengi vel nóg pláss til að gera góða hluti. Við höfðum forsíðuna og yfirleitt tvær síður inni í blaði.“

Nokkrum dögum eftir að fréttavefnum mbl.is var hleypt af stokkunum var Ágúst beðinn um að leysa af á þeim vettvangi og var þar áfram. Hann segir að það hafi ekki síður verið góður skóli en á blaðinu. Þar hafi ríkt skemmtilegur metnaður til að standa sig vel.

Vill nýta góða veðrið

Ágúst er kvæntur franskri konu, Nicole Ásgeirsson. Synir þeirra eru Nikulás og Klemens. Þau fluttu út til Frakklands á árinu 2005 og búa hjónin í Rennes á Bretaníuskaganum en synirnir á Íslandi. „Við ákváðum að hafa þetta svipað og í knattspyrnunni, verja fyrri hálfleiknum á Íslandi og þeim seinni í Frakklandi,“ segir Ágúst.

Fyrstu árin í Frakklandi tók hann að sér einstök verkefni fyrir Morgunblaðið en þau jukust á næstu árum. Hann hefur séð um ákveðin mál, meðal annars að flytja fréttir sem birtast í Morgunblaðinu yfir á vefinn og séð um bílavef og formúluvef, auk annars. Hann segir að verkefnin hafi slagað upp í fullt starf.

Ágúst varð nýlega 69 ára og ákvað að láta af störfum til þess að hafa meiri tíma til að sinna ýmsum hugðarefnum. „Það er mjög gott að vera hérna. Veðráttan er mild og nú legg ég áherslu á að nýta hana til að halda góðri heilsu sem lengst.“ Ágúst hefur verið tengdur íþróttastarfi alla tíð og nú eru Ólympíuleikar eins og árið sem hann hóf störf á Morgunblaðinu. Honum hefur þó gengið illa að fylgjast með keppni í Tókýó. Það er þó ekki vegna áhugaleysis heldur er það tímamismunurinn sem veldur vandræðum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »