Póstinum ætlað að tryggja samskiptadeild yfirsýn

Landspítalinn.
Landspítalinn. mbl.is/Hjörtur

Stefán Hrafn Hagalín, deildarstjóri samskiptadeildar Landspítalans, segir tölvupóstinn, þar sem stjórnendur spítalans voru beðnir um að vísa fyrirspurnum til samskiptadeildar og svara ekki fjölmiðlum, hafa verið áminning til starfsfólks um að láta vita af þeim fyrirspurnum sem berast svo Landspítalinn hafi yfirsýn fyrir þær og geti séð til þess að þeim sé svarað jafnóðum.

Þá hafi pósturinn ekki snúist um annað en að tryggja það að samskiptadeildin viti hvaða fyrirspurnir berist enda Landspítalinn risavaxinn vinnustaður. „Við erum ekki að ritskoða það sem fólk segir eða gera neitt annað en að tefla fram okkar sérfræðingum til svara á allar fyrirspurnir,“ segir Stefán.

„Það er hlutverk samskiptadeildar Landspítala, og hefur lengi verið, að halda utan um þær fyrirspurnir sem berast og þjónusta fjölmiðla og blaðamenn í hvívetna. Þar þurfum við að vera með hagsmuni, öryggi starfsfólks, sjúklinga og almannaheill að leiðarljósi,“ segir Stefán og bætir við:

„Það er verið að árétta fyrir fólki sem er á fullu að sinna sjúklingum að það þurfi ekki jafnframt að vera að svara fjölmiðlum á sama tíma. Þetta er bara mannskapur sem er í mjög alvarlegum verkefnum og þess vegna erum við með samskiptadeild til að dekka þetta og passa að fyrirspurnum sé svarað.“

Stefán Hrafn Hagalín, deildarstjóri samskiptadeildar Landspítala.
Stefán Hrafn Hagalín, deildarstjóri samskiptadeildar Landspítala.

Upplýsingaskyldan heilög

Þá segir Stefán að spítalinn taki upplýsingaskyldu sína mjög alvarlega. „Okkur finnst hún vera mjög heilög og leggjum mikið upp úr góðu samstarfi við fjölmiðla.“

Að sögn Stefáns er ekki ein einasta fyrirspurn útistandandi hjá samskiptadeild, svo hann viti til, sem sýni þá að deildin sé í stakk búin til að svara öllum fyrirspurnum fjölmiðla og að með þessu fyrirkomulagi verði upplýsingagjöfin öruggari. „Ég á ekki von á neinni skriðu og ef það verður skriða þá getum við fengist við það miðlægt með því að bæta við okkur mannskap,“ segir Stefán.

Þá bendir Stefán á að starfsfólk sé orðið þreytt og því sé verið að reyna að hvíla mannskapinn. „Þess vegna er mikilvægt að við fáum fyrirspurnirnar inn miðlægt svo við vitum af öllu sem er að koma inn þannig að því sé svarað. Þetta snýst ekki um neitt annað.“

„Vinalegur banter“

Í áðurnefndum tölvupósti kallar Stefán fjölmiðla skrattakolla. Varðandi orðalagið segist Stefán hafa verið þreyttur þegar hann skrifaði tölvupóstinn eftir að hafa verið kallaður úr sumarfríi sem var ekki nema fjórir dagar. Þá segir Stefán að einungis hafi verið um vinalegan „banter“ að ræða og bendir á að hann hafi nú sjálfur starfað sem blaðamaður.

„Það er mjög leiðinlegt ef fólk hefur tekið þessu einhvern veginn öðruvísi, mínu góðu fyrrverandi kollegar. Þeir eiga bara allt gott skilið,“ segir Stefán að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert