Setja þurfi íslensku þjóðina í forgang

Kamilla Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Kamilla Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, á upplýsingafundi almannavarna í dag. Ljósmynd/Lögreglan

Kamilla S. Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnarlæknis, segir að setja þurfi íslensku þjóðina í forgang þegar kemur að örvunarskömmtum af bóluefni við Covid-19.

Þetta kom fram í svari Kamillu við spurningu fréttamanns Vísis og Stöðvar 2 á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur óskað eftir því að lönd sem ætla að gefa þegnum sínum örvunarskammt af bóluefni gegn Covid-19 bíði með það þar til að tekist hefur að bólusetja fleiri í fátækum löndum í fyrstu umferð.  

Fátækari lönd eru mörg í vandræðum með að fá bóluefnaskammta og hafa jafnvel ekki enn náð að bólusetja viðkvæma hópa og heilbrigðisstarfsfólk.

Fyrsta skylda okkar

„Það er mjög mikilvægt að stuðla að því að heimsbyggðin fái bólusetningu“ sagði Kamilla á fundinum og ítrekaði að faraldrinum yrði ekki lokið fyrr en tekist hefði að stöðva hann erlendis.

Hún bætti við: „En ef við höfum tól í höndunum til að verja okkar íbúa þá er það fyrsta skylda okkar. Það er nú þegar búið að semja um að gefa bóluefni héðan til annarra landa en við munum samt sem áður setja íslensku þjóðina og okkar innviði í forgang því við getum ekki réttlætt annað.“

Frá upplýsingafundinum í morgun.
Frá upplýsingafundinum í morgun. Ljósmynd/Lögreglan

Endurbólusetningar þeirra sem fengu Janssen-bóluefnið og starfa í skólum standa nú yfir og sagði Kamilla að þeim yrði lokið í þessari viku víða um land og í næstu viku á höfuðborgarsvæðinu. Síðar í ágúst verður öðrum sem fengu Janssen-bóluefnið boðið að fá aðra bólusetningu.  

Í framhaldinu er í skoðun að gefa viðkvæmum hópum örvunarskammt af bóluefni til að vernda þá enn frekar gegn veikindum af völdum Covid-19.    

Ekki hægt að draga ályktanir en gögn lofa góðu

Aðspurð á fundinum hvort hægt sé að draga ályktanir af því að aldraðir íbúar á Grund, sem smituðust af Covid-19, séu einkennalausir eða einkennalitlir sagði Kamilla hópinn of fámennan til að hægt væri að draga ályktanir enn sem komið væri. 

„Það er mjög jákvætt að það virðist vera lítið um einkenni en það er kannski ekki komið nóg af fólki í þessum aldurshópi til að draga ályktanir,“ sagði hún og bætti við: 

Við vonum það að þetta verði staðfesting á því og það eru gögn erlendis frá sem benda til þess en við erum ekki tilbúin til að draga miklar ályktanir ennþá.“

mbl.is