Staðan á spítalanum „yfirvöldum til skammar“

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. mbl.is

Félag sjúkrahúslækna segir þá staðreynd að heildarfjöldi legurýma og gjörgæsluplássa á Íslandi sé með því lægsta sem þekkist í Evrópu, vera „íslenskum yfirvöldum til skammar“. Þörf sé á hugarfarsbreytingu og nýjum áherslum við stjórnun og mönnun Landspítalans.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem félagið sendi frá sér í dag í ljósi þess ástands sem upp er komið á Landspítalanum. 

„Alvarlegt ástand á Landspítalanum vegna viðvarandi skorts á heilbrigðisstarfsfólki er öllum augljóst. Aukning Covid-19 smita í samfélaginu eftir opnun landamæra Íslands án takmarkana hefði ekki átt að koma á óvart en fyrirséð var að alltaf yrði einhver aukning á smitum.

Núverandi hættustig Landspítalans er þó ekki eingöngu tilkomið vegna Covid-19 faraldursins, heldur endurspeglar viðvarandi skort síðustu ára með lágmarksmönnun og 100% hámarksnýtingu legurýma sem  fengið hefur að viðgangast alltof lengi þrátt fyrir ítrekaðar aðvaranir læknar,“ segir í yfirlýsingunni. 

Í yfirlýsingunni segir enn fremur að stjórnendur spítalans þurfi að finna varanlega lausn á krónískum skorti legurýma, en þar ætti að vera  forgangsatriði að ná legurýmanýtingu niður fyrir 90% með öllum tiltækum ráðum í samræmi við alþjóðleg viðmið um nýtingu legurýma.

„Tryggja þarf svigrúm Landspítalans til að takast á við álagstoppa í innlögnum og þjónustu við alvarlega veika sjúklinga óháð sumarfríum starfsmanna.  Mikilvægt er að gæta þess í lengstu lög að heilbrigðisstarfsmenn sem staðið hafa vaktina síðustu mánuði í baráttunni við Covid-19 faraldurinn fái óskert sumarfrí,“ segir í yfirlýsingunni. 

mbl.is