Stefna á að bólusetja börn í lok ágúst

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að líklega verði börn á aldrinum 12 til 15 ára boðuð í bólusetningu við skólabyrjun, í kringum 23.-24. ágúst.

Það var stefnt að því að bólusetja börnin í skólunum en líklega verða þau bólusett í Laugardalshöllinni, samt með öðru sniði en áður.

„Við munum setja þetta upp þannig að það henti börnum og foreldrum. Þá munum við óska eftir því að börn komi í fylgd foreldra og við munum stilla þessu upp þannig það verði tveir og tveir stólar saman og foreldrar geta setið hjá barni. Það verða líka fleiri rými ef einhver er kvíðinn eða hræddur. Við ætlum að gera þetta þægilegra. Það er allavega planið í dag en svo getur allt breyst,“ segir Ragnheiður.

Vel gekk í bólusetningum 

Vel gekk að bólusetja í dag en um eitt þúsund kennarar fæddir í aprílmánuði voru bólusettir með örvunarskammti. Ragnheiður segir að þau miði við að bólusetja í kringum 800-1.000 kennara á dag þar til allir hafa fengið sinn skammt.

„Síðan stefnum við á það að fara í Laugardalshöllina 16-19. ágúst og klára að bólusetja þá sem fengu Janssen.“

Bóluefninu deilt í vöðva og örvunarskammtur þar með tryggður.
Bóluefninu deilt í vöðva og örvunarskammtur þar með tryggður. Unnur Karen

Einnig gekk vel í sýnatökum í dag en tekin hafa verið yfir 3.500 sýni í dag og þar af 1.000 hraðpróf.

„Það hefur gengið vel, það var talsverð bið á þriðjudaginn en það gekk vel í gær og í dag. Við erum vonandi að komast fyrir horn í öllum þessum löngu biðröðum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina