Ekki hægt að mæla með notkun ivermectin

Höfundar ítreka þörf á ítarlegri og stærri rannsóknum.
Höfundar ítreka þörf á ítarlegri og stærri rannsóknum. AFP

Enn sem komið er hafa rannsóknir ekki sýnt fram á það að lyfið ivermectin virki gegn Covid-19. Þetta er niðurstaða læknanna Jóns Magnúss Jóhannessonar og Magnús Karls Magnússonar, sem svara spurningu um hvort nýlegar rannsóknir bendi til virkni lyfsins sem meðferð við Covid-19 á Vísindavefnum.

Í svarinu er saga rannsókna og safngreininga á virkni lyfsins sem meðferð gegn Covid-19 rakin. Þar er bent á að nokkrar rannsóknir hafi sýnt fram á virkni lyfsins í að minnka dánartíðni, sjúkdómsbyrði, innlagnartíðni og mögulega í því að fyrirbyggja sjúkdóminn. Hins vegar hafi aðrar safngreiningar bent til þess að virknin væri lítil sem engin hvort sem lyfinu væri beitt sem fyrirbyggjandi eða til meðferðar.

Erfitt að túlka virknina

Höfundar halda því fram að erfitt sé að túlka virkni lyfsins gegn sjúkdómnum. „Þvert á það sem margir vilja halda fram sýna ofangreind gögn að ekki er hægt að mæla með notkun ivermectins á þessu stigi, hvort sem það er í virkri meðferð eða fyrirbyggingu. Enn fremur er verulegur skortur á stórum, blinduðum, stýrðum slembiröðuðum rannsóknum.“

Cochrane-samtökin gerðu kerfisbundna samantekt og safngreiningu á virkni lyfsins sem fyrirbyggjandi- eða meðferðarlyfi gegn Covid-19. Þar voru aðeins metnar stýrðar rannsóknir sem tóku fyrir virkni lyfsins samanborið við vel skilgreindan samanburðarhóp.

Niðurstöður rannsóknanna 13 sem safnað var saman og náðu til 1678 fullorðinna einstaklinga komu engin merki fram sem bentu til þess að ivermectin minnki eða auki dánartíðni á 28 dögum. Né heldur að það komi veg fyrir verri einkenni eða bæti þau. Þá var ekki hægt að áætla um gagnsemi ivermectin sem fyrirbyggjandi lyfi og heldur ekki um gagnsemi fyrir þá sem séu alvarlega veikir.

Þörf á stærri rannsóknum

Að lokum ítreka höfundar þörf á ítarlegri og stærri rannsóknum um virkni lyfsins gegn Covid-19 og segja verulega vankanta í safngreiningunum sem sýna fram á jákvæð áhrif lyfsins. Margar þeirra hafi verið kostaðar af framleiðanda lyfsins.

„Ljóst er að ekki er hægt að mæla með notkun ivermectin við Covid-19 en rétt er að benda á að stórar, slembiraðaðar rannsóknir eru nú í gangi. Þessi ráðlegging er í samræmi við ráðleggingar margvíslegra stofnana,“ segir í lok svarsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert