Dúxaði í einum virtasta háskóla Bretlands

Hildur Hreiðarsdóttir dúxaði við Edinborgarháskóla.
Hildur Hreiðarsdóttir dúxaði við Edinborgarháskóla. Ljósmynd/Aðsend

Hildur Hreiðarsdóttir útskrifaðist á dögunum úr lífeindafræði við Edinborgarháskóla. Gerði hún sér lítið fyrir og landaði hæstu einkunn meðal nemenda í faginu og varð þar með dúx deildarinnar.

Hildur er tuttugu og tveggja ára. Hún flutti til Lúxemborgar með fjölskyldu sinni þegar hún var tíu ára og bjó þar uns hún flutti til Edinborgar í háskóla, átján ára.

Hún er nú flutt heim til Íslands eftir að hún fékk vinnu hjá lyfjafyrirtækinu Alvotech. „Ég hef mikinn áhuga á því sem Alvotech er að gera, sambland af lyfjafræði og ónæmisfræði en þau eru að þróa mjög áhugaverð lyf.“

Virtur 436 ára gamall háskóli

Edinborgarháskóli var síðasti skólinn sem Hildur tók ákvörðun um að sækja um. Hún vildi fara í háskóla í enskumælandi landi og sótti um fjóra skóla í og við London. Þá ákvað hún að bæta Edinborgarháskólanum við að lokum því þangað hafði hún aldrei komið. 

Um er að ræða mjög virtan og rótgróinn háskóla í  Bretlandi sem var stofnaður fyrir 436 árum en hann er meðal bestu háskóla sem Bretland hefur upp á að bjóða. Samkeppni um pláss þar er mikil.

Hildur var ekki lengi að ákveða sig að þiggja plássið eftir að hafa skoðað skólann og borgina. „Edinborg er fullkomin háskólaborg, passlega stór en þar búa ekki nema 500.000 manns og háskólinn er alveg miðsvæðis."

Hildur segir Edinborg vera hina fullkomnu háskólaborg.
Hildur segir Edinborg vera hina fullkomnu háskólaborg. Sóley Björk Guðmundsdóttir

„Alls ekki klárasta manneskjan“

Hún segist ekki hafa búist við því að dúxa þótt hún hafi haft háar einkunnir. Hildur lítur ekki á verðlaunin sem viðurkenningu fyrir greindasta einstaklinginn heldur frekar sem viðurkenningu fyrir besta nemandann. „Ég er alls ekki klárasta manneskjan í mínum árgangi en þetta er góð viðurkenning fyrir það að vera góður nemandi.“

Hildur minnist á að hún hafi náð að halda dampi öll fjögur árin námslega. Þar hafi fyrst og fremst agi, áhugi og góður grunnur úr skólanum í Lúxemborg komið sér vel. Hún var vel að sér í líffræði og efnafræði þegar hún byrjaði í náminu vegna áherslu úr grunnskóla. Þá var enskukennslan ekki síðri að hennar mati en Hildur kveðst eiga auðvelt með að koma hugmyndum sínum skýrt á framfæri. 

Gott að komast í aðra rútínu

Hildur var meirihluta síðasta árs á Íslandi en námið fór að mestu fram í gegnum fjarfundabúnað sökum heimsfaraldursins. Kærasti hennar er breskur og að ljúka meistaragráðu við þennan sama skóla. Hann kom með henni og er nú kominn með starf og lögheimili á Íslandi. 

„Það er fínt að vera komin í aðeins öðruvísi rútínu og hafa ekki stanslausa pressu yfir sér um helgar að eiga eftir að læra,“ segir Hildur um það að vera komin á vinnumarkaðinn og taka sér frí frá námi.

Hún stefnir á frekara nám í framtíðinni en vildi fyrst taka sér árs hlé til þess að átta sig betur á því hvað hún vill gera. 

Hún valdi sér lífeindafræði sautján ára og bendir á að margt geti breyst á þeim tíma. Hún hafi enn áhuga á faginu en það sé líka góður grunnur fyrir margt annað. Hún ætli sér ekki að loka á neina valmöguleika strax.

Mætti ekki í útskriftina

Vegna Covid-19 var ekki hefðbundin útskrift heldur var viðburðurinn haldinn í gegnum fjarskiptaforrit. „Ég mætti ekki einu sinni á hann því ég var í vinnunni,“ segir Hildur.

Hún fékk sendan myndbandsbút af því þegar nafnið hennar var lesið upp og hún útskrifaðist formlega. „Það var smá fúlt því vanalega er útskrift fyrir hverja deild á háskólasvæðinu og allir fagna saman.“

Í dag ætlar hún þó að fagna þessum merkisáfanga með nánustu vinum og ættingjum, en vegna ástandsins reyndi hún að passa að veislan yrði fámenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert