Fallist á kröfu aðstandenda og þolenda – eignir kyrrsettar

Frá brunanum við Bræðraborgarstíg í fyrra.
Frá brunanum við Bræðraborgarstíg í fyrra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nýverið féll úrskurður í héraðsdómi Reykjavíkur þess efnis að eignir HD verks ehf., eiganda hússins við Bræðraborgarstíg 1 sem brann 25. júní á síðasta ári, skyldu kyrrsettar.

Krafan var gerð fyrir hönd aðstandenda þeirra sem létust í brunanum og þolenda hans.  

Í úrskurðinum var felld úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 14. janúar um að synja um framgang kyrrsetningarinnar á eignum HD verks ehf. og lagði héraðsdómur Reykjavíkur fyrir sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu að kyrrsetja fasteignir félagsins á Dalvegi 24 og 26 eða aðrar eignir félagsins.

Þrír létust í brunanum á Bræðraborgarstíg. 

Frá samstöðufundi vegna brunans á Bræðraborgarstíg.
Frá samstöðufundi vegna brunans á Bræðraborgarstíg. Ljósmynd/Íris Jóhannsdóttir

Hafist var handa við að rífa leifar Bræðraborgarstígs 1 í júní. Hyggst Þorpið – vist­fé­lag reisa íbúðir fyr­ir eldri kon­ur á reitn­um þar sem húsið stóð áður.

Þá var Ma­rek Moszcynki, sem talinn er hafa valdið brunanum, sýknaður af refsi­kröfu ákæru­valds­ins í júní fyr­ir að hafa kveikt í húsinu. Ma­rek var dæmd­ur ósakhæf­ur í héraðsdómi, en var þó sak­felld­ur fyr­ir all­ar ákær­ur nema fyr­ir mann­dráp­stilraun við þá ein­stak­linga sem voru í viðbygg­ingu húss­ins. 

Krafa upp á tugi milljóna

Fallist var á málflutning sóknaraðila sem telja sig eiga lögvarða kröfu um greiðslu peninga sem ekki verði fullnægt með aðför að svo komnu máli. Að mati þeirra gaf sýslumaður versnandi efnahag félagsins ekki nægilegt vægi við sinn úrskurð í kyrrsetningarbeiðninni. 

Áður hefur komið fram í umfjöllun mbl.is að kröfur aðstandenda og leigjenda sem bjuggu í húsinu sem brann hljóði upp á tugi milljóna.

mbl.is