Grjótaþorpið í uppnámi yfir garðhýsi

Sverrir Guðjónsson og Oddur Björnsson við garðhýsi í Grjótaþorpinu.
Sverrir Guðjónsson og Oddur Björnsson við garðhýsi í Grjótaþorpinu. mbl.is/Unnur Karen

Kurr er í íbúum Grjótaþorpsins í Reykjavík þar sem áberandi garðhýsi situr nú í garði eins af elstu húsum þorpsins, Hákots við Garðastræti. Garðhýsið er viðbygging sem var flutt frá Akureyri og færð í Grjótaþorpið í byrjun júlí.

Að sögn Sverris Guðjónssonar og Odds Björnssonar, íbúa í þorpinu, fengust upplýsingar um komu garðhýsisins með litlum fyrirvara. „Það er skotið fyrst og spurt svo. Ég hef talað við flesta í þorpinu. Það er samstaða um vilja til að láta fjarlægja hýsið. Við erum hreinlega í uppnámi,“ segir Sverrir og bætir við að íbúar hafi strax sent erindi til byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar.

Sett niður í leyfisleyfi

„Við fáum í raun engin svör fyrr en tæpum mánuði síðar. Það gekk mjög erfiðlega að fá einhver viðbrögð frá borginni, sem er óþægilegt af því það þarf að bregðast skjótt við þessu,“ segir Sverrir og nefnir að vöntun hafi verið á grenndarkynningu. „Það hefur yfirleitt verið lögð mikil áhersla á slíkar kynningar þegar á að breyta umhverfi í nágrenni við íbúa.“

Mánuði eftir að íbúar sendu byggingarfulltrúa erindi bárust þau svör að þar sem umrætt smáhýsi væri nær lóðamörkum en þremur metrum hefði eiganda verið gert að leggja fram skriflegt samþykki lóðarhafa aðlægra lóða, sem er í þessu tilfelli skrifstofa reksturs og umhirðu borgarlandsins, þar sem um borgarland er að ræða.

Borgarland er samheiti yfir allt það landsvæði sem tilheyrir Reykjavíkurborg: götur, gangstéttir, stíga og opin svæði.

Byggingarfulltrúi staðfesti síðan í samskiptum við Odd að afgreiðsla fyrir leyfi á hýsinu hefði ekki farið fram. „Þegar ég spyr um viðurlög varðandi það að setja niður hýsið í leyfisleysi er fátt um svör,“ segir Oddur.

Tilfinningalegt gildi umhverfis

„Það er eins og það gildi aðrar reglur fyrir borgarland en þann nágranna sem þarf að lifa við þetta. Það er enginn á skrifstofu sem sér um borgarland sem þarf að búa þarna. Þá er spurningin: gilda aðrar reglur fyrir borgarland en íbúann?“ segir Sverrir og nefnir að verið sé að brjóta jafnræðisreglur ef garðhýsið fær að standa.

„Ég reikna nú með að byggingarfulltrúi skilji það vel að umhverfið hafi tilfinningalegt gildi. Við erum mörg hér sem höfum búið hér til margra ára. Hýsið breytir mynd götunnar og fellur mjög illa að umhverfinu að okkar mati,“ segir Sverrir. Að sögn hans liggur málið nú á borði umhverfis- og skipulagssviðs, sem sér um rekstur og umhirðu borgarlands. „Ég held að það sé miklu betra að vera ekki að bíða eftir niðurstöðu um leyfisveitingu. Íbúar geta kært ákvörðun um leyfisveitingu en mér skilst að leyfi verði veitt, sama hvað, þar sem það er einungis formsatriði. Við þurfum að reyna að vera á undan eiganda skúrsins. Það er verra að bregðast við eftir á,“ segir Oddur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert