Niðurrif hafið á Húsafelli

Páll Guðmundsson á Húsafelli.
Páll Guðmundsson á Húsafelli. mbl.is/Sigurður Bogi

Á föstudag hófst niðurrif á legsteinahúsi Páls Guðmundssonar myndhöggvara á Húsafelli og því verður að fullu lokið fyrir mánaðamót. 

Þetta kemur fram í facebookfærslu Páls. 

Hann hafði unnið með Biskupsstofu að því að reisa byggingu til að hýsa legsteinasafnið á Húsafelli í Borgarfirði. „Voru fengnir einir færustu arkitektar þjóðarinnar til hönnunar safnsins, þeir Stefán Örn Stefánsson og Grétar Markússon. Húsið fellur afar vel í landinu og er að mínu mati listaverk í sjálfu sér,“ segir í færslunni.

Treysti leyfum Borgarbyggðar

Sæmundur Ásgeirsson, nágranni Páls, höfðaði mál á hendur honum til þess að láta fjarlægja húsið sem stendur á lóðamörkunum. 

Páll segist hafa verið í góðri trú í öllu skipulags- og byggingarferlinu og treyst því að leyfi sem Borgarbyggð veitti honum fyrir byggingunni væru í fullu gildi.

„Því olli þessi niðurstaða, sem ég vil kalla refsidóm, mér mikilli sorg og vanlíðan. Frá uppkvaðningu dómsins voru mér gefnir 30 dagar til að rífa og fjarlægja öll ummerki um legsteinahúsið, sem í mínum huga er ekki einungis hús heldur stórkostlegt listaverk sem sómi er að og mikil staðarprýði.“

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert