Nokkrar kenningar um ástæður minna trausts til lögreglu

Lögreglumenn að störfum. Mynd úr safni.
Lögreglumenn að störfum. Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dregið hefur úr trausti til lögreglu hér á landi, þrátt fyrir að rúmlega átta af hverjum tíu beri nú traust til lögreglu og hennar starfa. Lækkunin skýrist fyrst og fremst af minnkandi trausti meðal fólks í yngsta aldurshópnum; 18 til 25 ára.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri rannsókn á viðhorfum landsmanna til þjónustu og starfa lögreglu sem framkvæmd var af Félagsvísindastofnun á vormánuðum. Rannsóknin er nýtt til þess að bæta starf lögreglu ef þörf er á.

Margrét Valdimarsdóttir, dósent í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri og doktor í afbrotafræði, vann rannsóknina. Hún segist í samtali við mbl.is hafa nokkrar kenningar um ástæðu þess að yngra fólk beri minna traust til lögreglu. 

Margrét Valdimarsdóttir, félagsfræðingur og doktor í afbrotafræði.
Margrét Valdimarsdóttir, félagsfræðingur og doktor í afbrotafræði. Ljósmynd/Aðsend

„Það sem skýrslan sýnir er að traust hefur aðeins minnkað og það er sérstaklega vegna þess að það er að minnka í yngsta aldurshópnum. Fólk á aldrinum 18-25 ára treystir síður lögreglu en undanfarin ár,“ segir Margrét. 

„Það er mikilvægt að taka fram að í alþjóðlegum samanburði hefur traust til lögreglu verið mikið á Íslandi, það hefur líka verið mikið annars staðar á Norðurlöndunum. Þetta er eðlilegast að skýra með því sem kallað er mjúk löggæsla; að lögreglan er óvopnuð og samvinna með almennum borgurum er meiri en víða annars staðar,“ segir Margrét. 

Margrét segir að eftir hrun hafi traust til flestra stofnana þjóðfélagsins snarminnkað. Traust til lögreglu hafi aftur á móti aukist. Það hafi haldist óvenjulega mikið síðustu ár og ekki sé óeðlilegt að aðeins dragi úr trausti á þessum tímapunkti. 

Black Lives Matter hafi mögulega áhrif 

Margrét segir að hvað viðkemur minnkandi trausti yngsta aldurshópsins til lögreglu, sem er nú um 60%, sé þróunin á Íslandi ekkert einsdæmi. 

„Mér finnst líklegt að það sé í fyrsta lagi einhvers konar smitun frá umfjöllun um lögreglu í öðrum löndum, eins og til dæmis í Bandaríkjunum eftir George Floyd og Black Lives Matter. Að það hafi áhrif á það hvernig ungt fólk horfir á lögregluna, þrátt fyrir að lögreglan á Íslandi hafi ekkert með það að gera,“ segir Margrét, sem vísar einnig til máls sem kom upp síðasta haust þegar rasískt merki á fatnaði lögregluþjóns var til skoðunar. 


„Ungt fólk virðist taka meiri afstöðu til eins og kynþáttamismunar. Ég tel líklegt að ungt fólk sé jafnvel meira að spá í þessa hluti en elstu aldurshóparnir,“ segir Margrét. 

Hún telur að önnur MeToo-bylgja hérlendis sem hefur verið áberandi síðustu mánuði, ekki síst í samhengi við mál tónlistarmannanna Ingólfs Þórarinssonar og Auðuns Lútherssonar, hafi einnig haft áhrif. 

„Í þessari MeToo-bylgju hafa konur verið að lýsa slæmri reynslu af því að leita til lögreglunnar. Nú veit ég til þess að lögreglan hefur unnið að því á síðustu árum að bæta umhverfi og móttöku þolenda og það hefur orðið mikil framför í því hvernig lögregla tekur á móti þolendum, en þegar svona gamlar sögur koma upp á netinu hefur það áhrif,“ segir Margrét. 

Konur beri meira traust til lögreglu 

Margrét segir að konur hafi lengi borið talsvert meira traust til lögreglu en karlar, rétt eins og við á um aðrar stofnanir samfélagsins. 

„Það sem er að koma fram núna er að traust kvenna til lögreglu hefur minnkað meira en traust karla, og það getur vel tengst MeToo. Konur hafa alltaf treyst lögreglunni meira en karlar, og það er alveg í samræmi við erlendar rannsóknir. Það er ennþá þannig, í þessari nýju skýrslu, en það var miklu meira. Það hefur dregið meira úr trausti meðal kvenna, þótt það sé ennþá aðeins meira meðal þeirra,“ segir Margrét. 

„Fólk hefur almennt ekki endilega beina reynslu af samskiptum við lögreglu, en það myndar sér samt skoðun á henni, úr fjölmiðlum og því sem fólk heyrir í þessum samfélagsbyltingum. Ég held að þessi skýrsla sýni að það þurfi helst að skoða af hverju ungt fólk treystir ekki lögreglunni, því að ungt fólk er kannski helst sá hópur sem þarf að leita til lögreglu. Það eru meiri samskipti við lögreglu meðal yngra fólks en þegar maður er orðinn miðaldra,“ segir Margrét. 

Menntun og stjórnmálaskoðanir hafa áhrif 

Margrét segir að ýmislegt annað en eigin reynsla af samskiptum við lögreglu hafi áhrif á það hvort fólk beri traust til lögreglu. 

„Það var ekki birt í þessari skýrslu, en það hefur komið fram í öðrum rannsóknum hérlendis að pólitískar skoðanir hafa áhrif, hægrisinnað fólk er líklegra til að treysta lögreglu en þeir sem eru vinstra megin í pólitík. Þetta er líka mismunandi milli landshluta hérna á Íslandi. Traustið er aðeins minna á höfuðborgarsvæðinu en það er víða úti á landi. Traustið er meira í minni samfélögum,“ segir Margrét. 

Menntun hafi einnig áhrif. 

„Það er meira traust til lögreglu meðal þeirra sem hafa háskólamenntun, en áður en maður fer að draga einhverjar ályktanir af því myndi ég vilja brjóta það upp líka eftir aldri. Ef þú ert tvítugur eru minni líkur á að þú sért búinn með háskóla, þannig að aldur og menntun geta tengst á einhvern hátt.

En í skýrslunni er fólk sem er háskólamenntað líklegra til að treysta lögreglu en þeir sem hafa ekki klárað háskóla og þeir sem hafa klárað framhaldsskóla eru sömuleiðis líklegri til þess að treysta lögreglu en þeir sem hafa bara klárað grunnskóla,“ segir Margrét. 

Rannsókna þörf á trausti til lögreglu hjá jaðarhópum 

Spurð hvort traust til lögreglu hjá jaðarhópum, t.d. meðal einstaklinga með vímuefnavanda, hafi verið rannsakað sérstaklega segir Margrét svo ekki vera. 

„Það þyrfti að gera því þessir hópar eru viðkvæmustu hóparnir og þeir sem þurfa hvað mest á aðstoð lögreglu að halda. Viðhorf þessara hópa til lögreglunnar er auðvitað mjög mikilvægt og þyrfti að skoða, en það hefur ekki verið gert,“ segir Margrét og bætir við:

„Þessi skýrsla er byggð á tilviljunarúrtaki landsmanna en fólk í einhvers konar jaðarhópum eða viðkvæmri stöðu er ólíklegra til að svara svona könnun sem kemur í tölvupósti, svo að jaðarhópar eru kannski ekki að taka þátt í svona könnunum og þá fáum við ekki jafn skýra mynd.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert