Flugumferðarstjórar kjósa um verkfall

Kjarasamningar urðu lausir um síðustu áramót.
Kjarasamningar urðu lausir um síðustu áramót. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í morgun lauk kosningu um vinnustöðvun hjá félagsmönnum í Félagi íslenskra flugumferðarstjóra. Niðurstöðurnar verða kynntar félagsmönnum annaðhvort í kvöld eða á morgun en félagið hefur staðið í viðræðum við SA fyrir hönd Isavia síðan í febrúar eftir að kjarasamningar urðu lausir um síðustu áramót.

„Þessar viðræður eru ekkert strand. Þær ganga vissulega hægar en við hefðum viljað en það er samningafundur á morgun og við mætum bara á hann og höldum áfram,“ segir Arnar Hjálmsson, formaður félagsins, í samtali við mbl.is en samningafundurinn á morgun er sá tólfti eftir að viðræðunum var vísað til ríkissáttasemjara í lok apríl.

Arnar Hjálmsson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra.
Arnar Hjálmsson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra. Ljósmynd/Aðsend

Vinnutími helsta deilumálið

Helsta deilumálið segir Arnar að sé vinnutími en þar að auki er rætt um starfslokaaldur. „Við gerðum viðsemjendum okkar það ljóst að það yrði stóra málið okkar og það hefur verið það frá upphafi,“ segir hann en bætir við að hann sé bjartsýnn fyrir komandi fundi.

„Það er ekki frost eða hótanir um eitt né neitt en við erum búnir að afla okkur þessarar heimildar eins og trúnaðarráðið fól okkur að gera. Ég á eftir að kynna þetta fyrir félagsmönnum og þá kemur í ljós hvernig kosningin fór og hvort til einhverrar vinnustöðvunar kemur og þá hvernig og hvenær. Það hefur ekkert verið talað um það og ekkert verið ákveðið um það endanlega,“ segir Arnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert