Hefur ekki verið tjaldað til margra nátta

Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymis alamannavarna.
Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymis alamannavarna. Ljósmynd/Lögreglan

„Það hefur verið gríðarlegt álag,“ segir Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningarteymis almannavarna, í samtali við Morgunblaðið.

„Nokkrum sinnum á tímabilinu [frá upphafi faraldurs] hefur komið upp að þetta sé að verða búið svo það er ekki tjaldað til margra nátta,“ segir Jóhann og útskýrir að ekki séu margir fastir starfsmenn í teyminu. Um sé að ræða fámennan kjarna sem hefur getað leitað til lögreglumanna og hjúkrunarfræðinga. „Við höfum verið svona átta til tíu á vakt.“

Jóhann segir að tilraunaverkefni sé nú að hefjast þar sem sjálfboðaliðar Rauða krossins, sem séð hafa um áfallahjálp, ganga til liðs við teymið.

„Við göngum ekki í endalausa lögreglumenn og hjúkrunarfræðinga og við eigum erfitt með að ráða því það yrði ekki til langs tíma í senn. Við erum að fá til liðs við okkur sérfræðinga í að tala við fólk,“ segir Jóhann. Hann segir að þegar mestu svartsýnisspár lágu fyrir um hundruð smita á dag hafi þurft að taka ákvörðum um hvort ætti að gefast upp á smitrakningu í núverandi formi eða útvega meiri mannskap. Þetta tilraunaverkefni sé liður í því. Spurður hvort ekki verði greitt fyrir vinnuna, sem er unnin af sjálfboðaliðum, segir Jóhann að fyrst verði fyrirkomulagið prófað og gangi það eftir verði farið í samninga. „Þetta bar brátt að. Þetta eru sjálfboðaliðar en það verður svo skoðað á stöðufundi eftir nokkra daga. Hugsunin er að geta leitað til hóps sem aðstoðar þegar yfir flýtur,“ segir Jóhann.

Jóhann segir að þrátt fyrir allt hafi smitrakning gengið vel undanfarna daga. Fólk sé farið að þekkja reglurnar vel, jafnvel hafa frumkvæði að því að athuga hvort það eigi að vera í sóttkví, taka vel í og fylgja fyrirmælum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert