Kórónuveirusmit í Konukoti

Konukot við Eskihlíð.
Konukot við Eskihlíð. Ljósmynd/Sigurgeir Sigurðsson

Kórónuveirusmit hafa greinst í Konukoti, neyðarskýli fyrir húsnæðislausar konur í Reykjavík, og hefur konum sem þar gistu verið komið fyrir á sóttkvíarhóteli.

Að sögn Halldóru Guðmundsdóttur, forstöðukonu Konukots, sem Rótin rekur fyrir Reykjavíkurborg, greindist smit hjá einum gesti og einni starfskonu í gærkvöldi. Þetta er í fyrsta sinn sem kórónuveirusmit kemur þar upp.

Engin starfsemi þangað til á morgun

Alls dvöldu 12 konur í Konukoti þegar smitin komu upp. Hluti kvennanna var bólusettur en Halldóra hefur ekki upplýsingar um hvort sú sem smitaðist hafi verið bólusett. Starfskonan var aftur á móti bólusett.

Starfsfólk verður konunum til halds og trausts á sóttkvíarhótelinu en þær þurfa að dvelja þar til næsta mánudags ef ekkert annað smit kemur upp.

Engin starfsemi verður í Konukoti þangað til á morgun. Gerðar hafa verið ráðstafanir fyrir þær konur sem ekki þurftu að fara á sóttkvíarhótelið og þakkar Halldóra Rauða krossinum og lögreglunni fyrir góð vinnubrögð í tengslum við málið.

Lokuðu skýli sem komið var á vegna faraldursins

Skammt er síðan Reykjavíkurborg lokaði neyðar­skýli fyr­ir heim­il­is­laus­ar kon­ur, eða í lok júlí, en því úrræði var komið á vegna heims­far­ald­urs kór­ónu­veirunn­ar á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert