Veit ekki hversu lengi er hægt að pína menn

Landverðir hafa sinnt gæslu og upplýsingagjöf við eldgosið í Geldingadölum …
Landverðir hafa sinnt gæslu og upplýsingagjöf við eldgosið í Geldingadölum frá því í byrjun júní. Ljósmynd/Umhverfisstofnun

Verið er að skoða hvernig gæslu við eldgosið í Geldingadölum verður háttað í haust en samningur sem gerður var við Umhverfisstofnun um landvörslu á svæðinu rennur út lok ágúst. Mikill vilji er þó fyrir því að halda samstarfinu áfram að sögn Renés Biasone, sérfræðings hjá Umhverfisstofnun Suðvesturlands, og Boga Adolfssonar, formanns björgunarsveitarinnar Þorbjarnar.

„Það er ekki búið að taka ákvörðun um það hvort samningurinn verður framlengdur en það verður vonandi gert fljótlega. Að því er ég best veit eru viðbragðsaðilar ánægðir með þetta forvarnarhlutverk sem landverðir gegna á svæðinu,“ segir René í samtali við mbl.is.

Telja þörf á að fjölga landvörðum

Verði samningurinn framlengdur telur René þörf á að fjölga þeim landvörðum sem eru á vakt á svæðinu. Í sumar hafa átta landverðir skipst á að sinna gæslu og upplýsingagjöf á svæðinu og unnið tveir og tveir sam­an, ým­ist á dag- eða kvöld­vökt­um.

„Ef landeigendur ákveða að fjölga aðkomuleiðum upp að eldgosinu verður ekki nóg að hafa einungis tvo landverði á vakt. Það yrði allavega mjög erfitt fyrir þá að sinna öllu svæðinu,“ segir René.

Bogi Adolfsson tekur í sama streng og segist ánægður með störf landvarðanna en hann myndi gjarnan vilja að þeir væru fleiri.

„Mér finnst upplýsingagildi þeirra það gott að ég myndi meira að segja vilja sjá þá fleiri, því svæðið er svo dreift.“

Vetraraðstæður kalla á breytt viðbragð

Í upphafi eldgossins sáu björgunarsveitirnar alfarið um gæslu á svæðinu eða alveg þar til landverðir tóku við keflinu í júní. René segir viðveru landvarðanna hafa veitt björgunarsveitarmönnum kærkomna hvíld í sumar en að í vetur verði líklega meiri þörf á sérhæfðri þekkingu björgunarsveitarmanna.

„Þá verða aðstæður svolítið flóknari. Dagarnir eru styttri, veðrið verra og gönguleiðin erfiðari yfirferðar. Slíkar aðstæður krefjast sérhæfðara viðbragðs,“ segir hann.

Björgunarsveitarmaður að störfum við eldgosið í Geldingadölum.
Björgunarsveitarmaður að störfum við eldgosið í Geldingadölum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Inntur eftir viðbrögðum segir Bogi líklegt að þörf verði á slíku viðbragði verði traffíkin áfram jafn mikil í gegnum svæðið. Björgunarsveitarmenn geti þó ekki staðið vaktina endalaust enda hafi þeir í nægu öðru að snúast.

„Við erum bara sjálfboðaliðasamtök og maður veit ekki hversu lengi er hægt að pína menn með einhverri viðveru þarna. Það er kannski kominn tími til að kasta boltanum yfir til þeirra sem eru í fullu starfi við þetta, þ.e.a.s. lögreglunnar og sjúkraflutningamanna.

Þetta er búið að vera mjög farsælt samstarf og við munum alltaf koma að þessu að einhverju leyti en við verðum þá kannski bara meira í því að sinna útköllum og koma þá inn til aðstoðar þegar þörf er á því. Við erum náttúrlega með sérhæfðu tækin og tólin til að sinna erfiðari útköllum þar sem flytja þarf slasað fólk sem getur ekki gengið sjálft.“ 

Aðstæður á svæðinu eru þó fljótar að breytast og ýmsar breytur sem hafa áhrif á það hvaða viðbragð þarf hverju sinni. Það geri mönnum erfiðara fyrir að skipuleggja viðbragð langt fram í tímann, að sögn Boga.

„Þetta verður bara að þróast með gosinu. Það þarf svo lítið til að aðstæður breytist á svæðinu. Kórónuveirufaraldurinn og ferðamannastraumurinn er svo önnur breyta. En við erum allavega byrjaðir að skoða, spá og spekúlera. Ég veit að lögreglan er líka eitthvað að reyna sjá þetta fyrir sér og vinna í sínum málum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert