Vinnustöðvun flugumferðarstjóra samþykkt

Flugumferðastjórar hafa samþykkt vinnustöðvanir.
Flugumferðastjórar hafa samþykkt vinnustöðvanir. Ljósmynd/Isavia

Tillaga um fimm sjálfstæðar vinnustöðvanir var samþykkt með miklum meirihluta á meðal flugumferðarstjóra á fundi í gærmorgun.

Niðurstöður atkvæðagreiðslunnar voru kynntar félagsmönnum Félags íslenskra flugumferðarstjóra í gærkvöldi að sögn Arnars Hjálmssonar, formanns félagsins. 

Ákvörðun um hvenær boðað verður til fyrstu vinnustöðvunar verður tekin í kvöld. 

Arnar Hjálmsson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra.
Arnar Hjálmsson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra. Ljósmynd/Aðsend

Ágreiningur um vinnutíma og starfslok

Arnar, sem sat sáttafund í kjaradeilu flugumferðarstjóra og Samtaka atvinnulífsins, sem semja fyrir hönd Isavia, segir að fundurinn hafi gengið ágætlega en viðræður þokist hægt. 

„Þetta eru örlítil hænuskref og gengur hægar en við hefðum viljað,“ segir Arnar. 

Hver vinnustöðvun mun vara í fimm tíma í senn og boða þarf til þeirra með viku fyrirvara í það minnsta. Næsti sáttafundur er fyrirhugaður á föstudaginn. 

Helstu ágreiningsefni snúa ekki að launaliðum heldur að vinnutíma og starfslokaaldri.

„Vinnuskylda og vinnutími hefur verið okkar langstærsta krafa og áhersla frá því að samningar losnuðu,“ segir Arnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert