Mál Gylfa Þórs enn til rannsóknar

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. AFP

Mál Gylfa Þórs Sigurðssonar, knattspyrnumanns Everton, er enn til rannsóknar hjá lögreglunni í ensku borginni Manchester. Ekki hefur verið gefin út ákæra á hendur honum,  að sögn lögreglunnar.

Gylfi var handtekinn vegna gruns um brot gegn barni fyrir þremur vikum.

Ekkert hefur heldur verið gefið út um að Gylfi eigi að mæta fyrir dómara á næstunni. 

Orðrómur hafði verið uppi um að Gylfi ætti að mæta fyrir dómara ytra annað hvort 12. eða 13. ágúst, þ.e. á morgun eða á föstudag.

Fjölmiðlafulltrúi lögreglunnar í Manchester segir við mbl.is að ekkert hafi verið ákveðið um það ennþá, hvorki þá ákæru né þingfestingu málsins.

Hún segir að þó nokkuð hafi verið spurt um þetta upp á síðkastið en að ekki hafi ennþá verið ákært í málinu og því ekki grundvöllur fyrir neinni þingfestingu fyrir dómi. 

Rannsókn málsins er enn í gangi að hennar sögn og að málið sé aðeins á því stigi. 

„Það hefur enginn verið ákærður eins og er,“ segir fjölmiðlafulltrúinn. 

En verði einhver breyting þar á, munuð þið tilkynna um það?

„Já, við munum tilkynna um það sjálf.“

Gylfi enn skráður á vefsíðu Everton

Everton, félag Gylfa, hafði áður sagst hafa sett 31 árs leikmann liðsins í bann og komu þá aðeins Gylfi og miðjumaðurinn Fabian Delph til greina. Gylfi virðist þó enn vera leikmaður liðsins, a.m.k. samkvæmt opinberri vefsíðu liðsins

Þegar félagaskiptaglugginn í enska boltanum lokar um mánaðamótin þurfa liðin að tilkynna í kjölfarið hvaða 25 leikmenn tilheyra þeirra hópi fyrir komandi tímabil. Óvíst er hvort Gylfi verði á meðal leikmanna Everton þá. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert