Olíuleki olli því að vél WOW var snúið við 2018

Wow Air varð gjaldþrota aðeins nokkrum dögum eftir atvikið.
Wow Air varð gjaldþrota aðeins nokkrum dögum eftir atvikið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rannsóknarnefnd samgönguslysa (RNSA) hefur gefið út skýrslu þar sem fram kemur hvers vegna flugvél WOW Air á leið til Baltimore var snúið við til Keflavíkur skömmu eftir flugtak þann 1. nóvember 2018.

Flugstjórar vélarinnar slökktu á afli í öðrum hreyfli Airbus 321 vél Wow Air vegna olíuleka sem kom upp í vél hreyfilsins. 

Samkvæmt skýrslu RNSA kom olíulekinn upp vegna þess að framleiðandi vélarinnar setti þéttihring í olíusíu hreyfilsins vitlaust á skrúfgang sem hringnum var ætlað að þétta. Vegna þessa lak olía um allan hreyfilinn skömmu eftir flugtak. 

Þéttihringurinn var settur vitlaust á bolta í olíusíunni, sem hér …
Þéttihringurinn var settur vitlaust á bolta í olíusíunni, sem hér sést, með þeim afleiðingum að olía lak inn á hreyfilinn. Skjáskot/RNSA

Nýkomin úr heildarskoðun

Nokkrum dögum áður en olíulekinn varð hafði vélin farið í heildarskoðun hjá fyrirtækinu Adria Tehnika á flugvelli í Slóveníu, þar sem olíusíum í báðum hreyflum hennar var skipt út. Það var þá sem olíusíurnar voru vitlaust skrúfaðar saman. 

Hins vegar segir í skýrslunni að á pakkningum utan um þéttihringinn séu leiðbeiningar um notkun hans sem séu ekki endilega fullnægjandi. Þar sé flugvirkjum leiðbeint hvernig megi setja þéttihringinn á skrúfgang olíusíunnar með „ákjósanlegri hætti en ella“ en ísetning þéttihringja í olíusíur er ansi flókin aðgerð á Airbus 321 vélum þar sem vinna þarf upp fyrir sig. 

Þannig sé ekki endilega við neinn að sakast, en bæði Airbus og Adria Tehnika hefur verið bent á hvað geti hafa farið betur. 

Þegar vélinni var snúið við á sínum tíma var hættustigi lýst yfir í Leifsstöð, björgunarsveitir um öll Suðurnes settar í viðbragðsstöðu og 10 sjúkrabílar biðu við álverið í Straumsvík í viðbragðsstöðu. Hættustig var þó afturkallað og viðbúnaður einnig þegar vélin lenti heilu og höldnu aftur í Keflavík um hálftíma eftir flugtak. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert