Segir upplýsingaflæði frá borginni til skammar

Börn í Kvistaborg snúa nú aftur úr sumarleyfum en ekkert …
Börn í Kvistaborg snúa nú aftur úr sumarleyfum en ekkert húsnæði er tilbúið fyrir þau. mbl.is/Kristinn Magnússon

Allar leikskóladeildir leikskólans Kvistaborgar í Fossvogi verða færðar tímabundið í Safamýrarskóla. Húsnæðið var ekki tilbúið við opnun leikskólans eftir sumarleyfi og eru því öll börn í leikskólanum í helmingi húsnæðis skólans sem stendur. 

„Mér finnst einkennilegt að ekki sé búið að finna einhverjar viðeigandi lausnir fyrir upphaf þessa skólaárs. Þetta vandamál lá ljóst fyrir í apríl,“ segir María Helen Eiðsdóttir í samtali við mbl.is. Hún er með tvö börn á leikskólanum Kvistaborg.

Þegar ljóst var að mygla væri í húsnæði leikskólans í vor var starfsemi hans flutt í félagsheimilið Hólmgarð.

Í svari Reykja­vík­ur­borg­ar við skrif­legri fyr­ir­spurn mbl.is frá því í apríl var gert ráð fyrir að börn gætu snúið aftur í Kvistaborg að sumarfríi loknu. Nú er svo komið að leikskólinn er hafinn aftur eftir sumarlokun og engin lausn í sjónmáli.

Vekur óöryggi meðal foreldra 

„Ég hefði mjög gjarnan viljað fá betra upplýsingaflæði varðandi allt frá Reykjavíkurborg. Ég ber fullt traust til leikskólastjóra, Guðrún [Gunnarsdóttir] leikskólastjóri hefur upplýst okkur jafnóðum um það sem hún veit,“ segir hún.

„En upplýsingar frá Reykjavíkurborg finnst mér vera til skammar. Þetta vekur óöryggi hjá mér sem foreldri að vita ekki næstu skref – ég veit ekki neitt.“

„Það má spyrja sig að því hvort að enginn hafi lært neitt af upplýsingaleysinu í Fossvogsskóla.“

María Helen segir mestu máli skipta að leikskólinn verði myglulaus skóli. Að vandamálið sé til staðar og það þurfi að leysa.

Hún segir foreldra ekkert vita um hvernig starfsemi leikskólans eigi að vera næstu vikur. Hvenær farið verði í Safamýrarskóla og hve lengi áætlað er að hafa starfsemi þar. Samkvæmt tölvupósti frá leikskólastjóra má gera ráð fyrir að nemendur verði þar í vikur eða mánuði.

María Helen Eiðsdóttir móðir tveggja barna í Kvistaborg.
María Helen Eiðsdóttir móðir tveggja barna í Kvistaborg. Ljósmynd/Aðsend

Veit ekkert hvernig skólinn verður

„Við vitum ekkert hvernig aðstæður eru í því húsnæði og hvort að það henti því flotta, faglegu starfi sem Kvistaborg hefur staðið fyrir. Eins og ég segi, ég veit ekki neitt.

Mér verður líka hugsað til aðstæðna starfsfólks og óvissu sem þau hljóta að upplifa í þessum aðstæðum. Leikskólinn hefur verið til fyrirmyndar varðandi sóttvarnir vegna Covid-19 en gert það ómögulegt að koma öllum börnunum fyrir í litlu húsnæði.

Upplýsingaflæðið frá Reykjavíkurborg er bara ekkert þannig að ég veit ekki neitt og það finnst mér rosalega vont. Ég er með tvö börn sem eru að fara þarna og ég veit ekki hvernig leikskólinn verður í næstu viku.“

Í upplýsingapósti frá leikskólastjóra til foreldra segir að henni skiljist að setja eigi upp skála svo að leikskólinn „geti flutt aftur heim“. María Helen segist ekkert vita hvenær stefnt er að því að þeir séu tilbúnir, hvort að uppsetning þeirra krefjist grenndarkynningar eða hvar þeir eigi að vera. 

„Ég myndi í það minnsta vilja fá að vita ef ekki hefur verið tekin ákvörðun um eitthvað, í staðinn fyrir þessa rosalegu þögn.“

María Helen segir takmarkaða lausn falda í því að leikskólabörnin fari í Safamýrarskóla. Þetta komi illa við marga foreldra sem séu vanir að ganga með börnin sín í leik- og grunnskóla í hverfinu. 

Áhyggjur af faglegu starfi

„Ég vel þennan leikskóla vegna þess að ég bý hérna rétt hjá. Ég reyni að nota græna samgöngumáta og ganga sem mest. Þetta kostar það að ég er að fara að keyra úr einu hverfi í annað. Þetta er verulega úr leið, meira en skátaheimilið í Hólmgarði var nokkurn tímann – þó að það hafi ekki verið viðeigandi húsnæði fyrir leikskóla.“

Einnig hafa foreldrar valið dvalartíma barna sinna miðað við staðsetningu leikskóla og vinnu og gætu því lenti í vandræðum og auknum kostnaði eftir flutning skólans.

María Helen segist hafa áhyggjur af faglegu starfi leikskólans ef hann er ekki í viðeigandi húsnæði í lengri tíma. Í Hólmgarði hafi til að mynda ekki verið garður fyrir börnin til að leika sér, ekki leiktæki og ekki aðstaða fyrir faglegt starf. 

Hún segir að staðan við opnun leikskólans hafi ekki átt að koma Reykjavíkurborg á óvart. Leikskólinn hefur verið lokaður í fjórar vikur og þegar börnin koma til baka er ekkert húsnæði tiltækt fyrir þau.

María Helen ítrekar að leikskólastjóri og starfsmenn leikskólans hafi fullt traust og staðið sig vel í krefjandi verkefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert