Framtíð hússins ræðst klukkan þrjú

Hér má sjá byggingarkranann sem bíður átekta.
Hér má sjá byggingarkranann sem bíður átekta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Klukkan tvö átti að ráðast hvort samningur yrði undirritaður um framtíð legsteinahússins hans Páls Guðmundssonar, myndhöggvara á Húsafelli, eða hvort niðurrif hæfist. Nú hefur því verið seinkað til klukkan þrjú.

Mikill fjöldi fólks er nú samankominn og bíður eftir fréttum úr Borgarnesi þar sem samningaviðræður hafa staðið yfir frá því að sáttafundinum lauk klukkan hálf ellefu í morgun.

Páll sjálfur er meðal manna og er andrúmsloftið spennuþrungið enda er enn óvíst hvort þak verði híft á eða rifið af húsinu.

Skilaboð af samningaviðræðunum eru misvísandi en séra Geir Waage fræðir fólk um sögu legsteinanna meðan það bíður. Veðurblíða er á Húsafelli sem gerir biðina skárri.

Þakið er í heljargreipum kranans.
Þakið er í heljargreipum kranans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þakið yfir forrými hússins var híft af í gær en nú er þakið yfir húsinu sjálfu í heljargreipum byggingarkrana. 

Eftir sáttafund morgunsins var útlit fyrir að samkomulag hefði náðst. Var þá hafist handa við að skrifa upp samninginn.

Legsteinar á Húsafelli.
Legsteinar á Húsafelli.

Samningurinn ekki kláraður

Að sögn ættmenna Páls, sem hafa safnast saman við húsið til að sýna honum stuðning, hver sem niðurstaðan verður, kom upp ágreiningur um viðbótarkröfur og því hefur orðið seinkun á samningaviðræðum. 

Lagt var upp með að samningurinn yrði tilbúinn klukkan tólf en hann hefur ekki enn þá verið kláraður. Því var tekin ákvörðun um að lengja frestinn þannig að niðurstaða verður tilkynnt klukkan þrjú en ekki tvö.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert