Gengur mun hraðar en gert var ráð fyrir

Sylwia og Guðmundur Felix á góðri stundu.
Sylwia og Guðmundur Felix á góðri stundu. Ljósmynd/Benni Valsson

Guðmundur Felix Grétarsson, sem fékk grædda á sig hand­leggi í byrj­un árs, fyrst­ur manna, hefur náð markmiði sumarsins og getur nú lyft hægri handlegg upp í 180 gráður. Ferlið gengur mun hraðar en gert var ráð fyrir. Þá er hann kominn með góða hreyfigetu í olnbogann. Vinstri handleggurinn er aðeins á eftir þeim hægri.

„Gangurinn á handleggjunum er alveg ótrúlegur,“ segir Guðmundur Felix.

Þegar blaðamaður náði tali af Guðmundi Felix í vikunni var hann staddur í sumarfríi með eiginkonu sinni, Sylwiu Gretarsson Nowakowska. Það er orðið langt síðan hjónin gátu tekið sér frí síðast en Guðmundur Felix er búinn að vera í stífri endurhæfingu síðastliðna sex mánuði. Þau njóta nú lífsins við sjávarsíðuna í suðurhluta Frakklands.

„Ég er bara virkilega að njóta þess að vera til í góða veðrinu. Ég fer í sjóinn daglega og ég get hreyft vinstri öxlina alveg upp í 90 gráður og til hliðar þegar ég er í vatni. Ég nota því tækifærið til þess að styrkja mig,“ segir Guðmundur Felix.

Axlarvöðvarnir sterkari hægra megin

Þótt vinstri handleggurinn sé seinni til þá getur Guðmundur Felix lyft honum aðeins til hliðar og fram en ekki alveg upp. Ástæðan fyrir muninum á handleggjunum tveimur er að Guðmundur Felix var með axlarvöðva hægra megin áður en handleggirnir voru græddir á hann. Vinstri öxlin verður aldrei með sömu hreyfigetu og heilbrigð öxl.

„Hægra megin var ég með einhverja axlarvöðva sjálfur svo þeir eru eðlilega sterkari,“ segir Guðmundur Felix.

Eins og áður segir getur hann lyft hægri handlegg alla leið upp í loft, eða í 180 gráður.

„Það sem gerist reyndar ef ég fer of hátt upp, vegna þess að ég er ekki með nógu góðan þríhöfða til þess að halda olnboganum stífum, er að handleggurinn dettur ofan á hausinn á mér,“ segir Guðmundur Felix léttur í bragði. Handleggurinn hefur nokkrum sinnum lent á andliti hans.

Finnur taugarnar vaxa

Í samtali við mbl.is í maímánuði sagði hann: „Ég ætla að vera far­inn að hreyfa eitt­hvað fyr­ir sum­ar­lok.“

Hefurðu þá náð markmiðinu sem við ræddum í byrjun sumars?

„Já. Ég er alveg farinn að ná góðri hreyfigetu í olnbogann. Ef ég set handlegginn á borðið eins og ég sé að fara í sjómann við einhvern þá get ég haldið honum alveg stöðugum og meira að segja látið hann síga svolítið fram,“ segir Guðmundur Felix sem finnur sterkt fyrir taugum langt niður framhandlegginn.

„Ég finn taugarnar vaxa, sérstaklega þegar stofnarnir eru að vaxa. Ég er ekki kominn með tilfinningu í húðina en inni í handleggnum, í vöðvum og annað er tilfinningin mjög sterk. Ef einhver tekur utan um handleggina á mér þá finn ég það mjög sterkt,“ segir Guðmundur sem líkir tilfinningunni sem hann finnur fyrir þegar taugarnar vaxa við það þegar bankað er í vitlausa beinið: „Svona eins og rafstraumur út um allar trissur.“

Guðmundur segist „virkilega bjartsýnn“ á að fá brátt betri hreyfigetu í olnbogann og geta jafnvel hreyft fingurna aðeins. „Það átti ekki að gerast fyrr en eftir tvö ár,“ segir Guðmundur Felix.

Einblíndu fyrst á upphandleggsvöðva en horfa nú á framhandleggina

„Þetta gengur mun hraðar en gert var ráð fyrir. Daglega þarf að setja elektróður á handleggina til þess að viðhalda vöðvunum, með því að láta þá spennast, svo þeir rýrni ekki eins hratt. Upphaflega einblíndu læknarnir á upphandleggsvöðvana því það var það sem þeir sáu fyrir sér að ég myndi geta notað. Markmiðið var upphaflega að geta hreyft olnbogann. Nú lítur út fyrir að ég sé að fara að fá mun meiri hreyfigetu en það svo nú er einblínt á að viðhalda framhandleggjum á meðan taugarnar eru að vaxa svo ég hafi einhvern styrk þar,“ segir Guðmundur Felix.

Þótt vinstri höndin sé ekki jafn vel stödd og sú hægri finnur Guðmundur Felix líka fyrir taugum í þeirri vinstri.

„Þó svo að axlarhreyfingarnar verði líklega takmarkaðar er ég vongóður um að geta hreyft vinstri höndina meira á einhverjum tímapunkti líka.“

Úr spennitreyjunni

Guðmundur Felix hefur þurft að hafa hendurnar bundnar upp stærstan part dags til þessa, þar sem þær eru mjög þungar og létta þarf álaginu af öxlinni. Í fríinu hefur hann leyft sér að sleppa beislinu aðeins.

„Ég finn alveg að ég get í einhvern tíma, samt ekki allan daginn, gengið um og látið handleggina hanga. Það er rosalega mikill áfangi fyrir mig því þetta er eins og að vera alltaf í spennitreyju.“

Guðmundur Felix skömmu eftir að aðgerðin var framkvæmd í janúarmánuði. …
Guðmundur Felix skömmu eftir að aðgerðin var framkvæmd í janúarmánuði. Hún var fyrsta aðgerð sinnar tegundar á heimsvísu og hafði Guðmundur beðið hennar í mörg ár.

Þreyttur í hálft ár

Mánuðirnir sex sem liðnir eru frá því að Guðmundur hóf endurhæfingu hafa verið strembnir.

„Ég er bara búinn að vera í fullri vinnu í endurhæfingu fram að þessu fríi. Ég er búinn að vera þreyttur í sex mánuði. Um helgar sef ég alveg annan daginn og næ svo að gera eitthvað með fjölskyldunni hinn daginn. Ég er langt frá því að vera kominn með fulla orku aftur. Líkaminn er enn svolítið að aðlagast þessari nýju viðbót þannig að ég þreytist fyrr. Í 23 ár þurfti hjartað í mér aldrei að pumpa blóði í neina handleggi. Það er þungt að bera þá á meðan það er svona stór hluti af þeim sem er ekki virkur,“ segir Guðmundur Felix.

„Um leið og maður fer að fá virkni í fleiri vöðva er meira af vöðvum sem taka á sig þetta álag.“

Sjö og hálf milljón mánuðurinn

Guðmundur Felix mun halda áfram í endurhæfingu að fríinu loknu.

„Ég kem bara heim og byrja aftur í fimm daga prógrammi. Ég verð í endurhæfingu í að minnsta kosti tvö ár í viðbót. Það var talað um þrjú ár sem það taki fyrir okkur að sjá hver lokaniðurstaða og árangurinn er. Því betri þjálfun sem ég fæ, því meiri líkur eru á góðum bata, svo ég andskotast í þessari endurhæfingu eins lengi og þarf.“

Guðmundur Felix hefur búið í Frakklandi árum saman, enda beið hann þar lengi eftir handleggjaágræðslu, og er því kominn inn í kerfið þar. Ef það væri ekki staðan myndi það kosta hann sjö og hálfa milljón króna mánaðarlega að vera í endurhæfingu.

„Það er bót í máli hvað ég er búinn að búa hérna lengi. Ég er í raun bara kominn inn í kerfið og ég er með lögheimili í Frakklandi og þar af leiðandi borga ég ekkert fyrir endurhæfingu,“ segir Guðmundur Felix.

Guðmundur Felix getur nú sleppt beislinu, sem hann segir eins …
Guðmundur Felix getur nú sleppt beislinu, sem hann segir eins konar spennitreyju, oftar en áður. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert