Sér tækifæri í baráttunni

Jón Ágúst Þorsteinsson er forstjóri Klappa - grænna lausna.
Jón Ágúst Þorsteinsson er forstjóri Klappa - grænna lausna. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við megum aldrei gleyma því að þetta verkefni, að takast á við loftslagsbreytingar, mun skapa mikla atvinnu og mörg tækifæri fyrir Ísland. Þetta mun styrkja íslenskan landbúnað, íslenska matvælaframleiðslu og íslenskt samfélag í heild. Til að það sé hægt þurfum við að fjárfesta og gera það núna. Við þurfum öll að vera sammála um að taka þessi skref og byggja upp jákvætt samtal milli allra hagaðila, ríkisins, fyrirtækjanna, bændanna, einstaklinganna sem búa í landinu, og svo framvegis,“ segir Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Klappa – grænna lausna.

Klappir vinna með fjölda fyrirtækja að því að lágmarka kolefnisfótspor þeirra og losun gróðurhúsalofttegunda. Telur Jón Ágúst einsýnt, í ljósi niðurstöðu skýrslu Sameinuðu þjóðanna um stöðu loftslagsbreytinga sem birt var á mánudaginn, að loftslagsvandinn sé gríðarlegur og verkefni þjóða heims mjög stórt. Þykir nú nokkuð ljóst að lítið hafi breyst síðustu ár þrátt fyrir yfirlýsingar og loforð þjóðarleiðtoga.

Staða og markmið Íslands

Í desember 2015 var Parísarsáttmálinn samþykktur af 196 löndum og tók hann gildi á heimsvísu 4. nóvember næsta árs. Eins og frægt er var markmið samningsins að sporna gegn loftslagsbreytingum og takmarka hlýnun jarðar þannig að hækkun hitastigs fari ekki yfir 1,5-2 gráður miðað við meðalhitastig sem var við upphaf iðnvæðingar.

Með undirritun sáttmálans skuldbatt Ísland sig til að draga allverulega úr útblæstri koldíoxíðs (CO²) og gróðurhúsalofttegunda á næstu 15 árum. Er nú stefnt að því að árið 2030 verði búið að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi um 55% miðað við losunina árið 1990. Stefnum við jafnframt á kolefnishlutlaust Ísland árið 2040, þ.e. að losun gróðurhúsalofttegunda fari ekki umfram það sem við bindum. Til að ná því hafa yfirvöld sett þau markmið að efla aðgerðir sem miða að kolefnishlutleysi og auka áherslu á loftslagstengd þróunarsamvinnuverkefni.

Að sögn Jóns Ágústs hefur losun Íslands lítið sem ekkert breyst frá því að sáttmálinn var undirritaður á sínum tíma. Eru Íslendingar nú með eitt stærsta kolefnisfótspor í Evrópu miðað við höfðatölu, eða 15,8 tonn á íbúa á árinu 2019, ef ekki er tekið tillit til landnotkunar, skógræktar, alþjóðaflugs og siglinga. Er það tæplega tvöfalt stærra en meðaltalslosun í Evrópusambandinu sem stendur í 8,4 tonnum á íbúa.

Frá Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi.
Frá Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi. mbl.is/RAX

„Losunin hefur aukist frekar en minnkað frá 2015. Við erum búin að missa þriðjung af þeim tíma sem við höfðum, það er það sem gerir verkefnið rosalega dýrt. Við erum að tapa árum. Við hvert ár sem líður eykst kostnaðurinn verulega og tíminn okkar styttist til þess að ná tökum á þessu.“

Frá árinu 1990 hefur losun Íslands aukist um 35% ef ekki er horft til landnotkunar og skógræktar en árið 2020 voru um 4,7 milljónir tonna leystar í andrúmsloftið. Kveður skuldbinding okkar á um að sú tala verði komin niður í 1,6 milljónir árið 2030. „Við höfum núna tíu ár til að fara úr 4,7 milljónum tonna í 1,6 milljónir tonna. Við erum því að tala um gríðarlega stórt verkefni,“ segir hann.

Næstu skref

Spurður hvaða skref Íslendingar þurfi nú að taka til að raunhæft sé að ná settum markmiðum segir Jón Ágúst að nauðsynlegt sé að horfa til margra þátta. Er þá meðal annars mikilvægt að skoða eldsneyti, samgöngur, framleiðsluferli, flokkun úrgangs og neyslu Íslendinga svo eitthvað sé nefnt.

„Við þurfum að átta okkur á því hvernig við tökum koldíoxíð út úr framleiðsluferlinu og bindum það. Það þarf að innleiða tæknilausnir sem við þekkjum, þróa þær og skala þær upp. Við þurfum að framleiða metanól eða vetni sem eldsneyti á skip og koma upp vistvænum samgöngum. Síðan þurfum við að samþætta flokkun um allt land og tryggja að úrgangur sé lágmarkaður og endurunninn. Við þurfum að vinna á öllum stöðum,“ segir hann.

Auk þessara þátta telur Jón Ágúst einnig mikilvægt að við hugum að aukinni skógrækt og endurheimt votlendis og lífríkinu sem þar er að finna. Með votlendi munu þau svæði sem við þurrkuðum upp hætta að losa gróðurhúsalofttegundir. Er uppbygging skóga auk þess skilvirk leið til að auka bindingu gróðurhúsalofttegunda og hefur hún einnig margvísleg jákvæð áhrif á vistkerfið. Samkvæmt úttekt Klappa þurfa Íslendingar nú að gróðursetja að minnsta kosti fimm milljónir trjáplantna árlega fram til 2030 ef við viljum stefna á kolefnishlutleysi árið 2040. „Ef við tölum um skógræktina sérstaklega þá þarf að tífalda hana miðað við það sem hún er í dag. Það tekur síðan 10 til 15 ár fyrir tré að byrja að binda þannig að við þurfum að koma öllum þessum skógi upp fyrir 2025 sirka svo hann sé farinn að hafa tilsett áhrif árið 2040.“

Lífríki hafsins stafar ógn af hlýnun og súrnun sjávar.
Lífríki hafsins stafar ógn af hlýnun og súrnun sjávar. mbl.is/Styrmir Kári

Að sögn Jóns Ágústs eru íslenskir bændur í lykilstöðu í þessari baráttu, sérstaklega hvað varðar losun gróðurhúsalofttegunda frá landi. Er því mikilvægt að lögð sé áhersla á að vinna með þeim í endurheimt votlendis og uppbyggingu skógræktar. Segir hann mikil verðmæti fólgin í því að binda kolefni og því sé nú þörf á að viðskiptalíkan verði útbúið sem segir til um hvernig bændur geti selt bindingu til þeirra sem þurfi á því að halda. Með þeim hætti geti þeir virkilega breytt atvinnuháttum og tekjumöguleikum býlanna.

Aðgerðaleysi kostar

Segir Jón Ágúst nú mikilvægt að ríkið leggist í miklar fjárfestingar til að takast á við loftslagsmálin. Hingað til hafa fjármunir sem varið er í þetta verkefni numið einhverjum hundruðum milljóna. „Í líkönum sem við gerðum árið 2017 gerðum við spá um að kostnaðurinn sem við þyrftum að leggjast í væri á bilinu 270-300 milljarðar. Það verður aldrei minna en það. Eftir því sem tíminn sem við höfum til ráðstöfunar styttist því meiri verður fjárfestingin.“

Segir hann jafnframt mikilvægt að sköpuð sé umgjörð til að leiðbeina neytendum í íslensku samfélagi svo hægt sé að hámarka árangurinn í baráttunni. Segir hann ríkið hafa margvísleg tól til að stýra neyslu fólks og hegðun. Verðum við að sameinast um þessa baráttu rétt eins og við gerðum í baráttunni við kórónuveirufaraldrinum.

„Við sem einstaklingar köllum á framleiðslu því við erum neytendur. Við þurfum að fara að draga úr allri okkar neyslu og það strax. Við getum ekki verið að henda rusli á þessum stórkostlega skala. Við þurfum að fara að endurnýta og endurvinna. Það myndi minnka framleiðslu, það er ljóst. Við sem einstaklingar þurfum að fara að taka þetta til okkar. Þetta snýr allt að okkur í grunninn.“

Bjartsýnn á framtíðina

Þrátt fyrir að baráttan við loftslagsbreytingar virðist oft og tíðum óyfirstíganlegt verkefni sem geti reynst afar kvíðavaldandi fyrir marga kveðst Jón Ágúst standa í þeirri trú að marga jákvæða punkta megi finna í þessu líka. Sérstaklega hvað varðar atvinnusköpun og styrkingu innviða. Telur hann Ísland vera í kjörstöðu til að snúa vörn í sókn með fjárfestingum og þróun grænna tæknilausna og hugbúnaðar. Getum við svo miðlað þekkingu okkar og reynslu til annarra þjóða sem þurfa á því að halda.

„Við þurfum að hugsa þetta upp á nýtt, þetta er kannski eitt stærsta atvinnutækifærið okkar og stærsta tækifærið til að styrkja Ísland. Þetta er ekki verkefni til þess að herða að okkur heldur verkefni til þess að skapa störf fyrir ungt fólk og verða til fyrirmyndar í loftslagsmálum. Þetta er áskorun en þetta getum við gert.“

Telur hann mikilvægt að fjölmiðlar og ráðamenn hvetji almenning til dáða frekar en halda uppi hræðsluáróðri. Við græðum lítið á því að gera fólk óttaslegið án þess að veita því von um framhaldið.

„Það er mikið verið að sýna okkur hvernig heimurinn er að brenna og við verðum óttaslegin og lokum fyrir það. Við verðum að nálgast málið með öðrum hætti, fræða fólk og upplýsa. Segja því hvert verkefnið er. Okkar verkefni er að draga úr losun um 55%. Þetta er einfalt. Við þurfum bara að gera meira af því góða og minna af því slæma,“ segir hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert