Hópsýkingar í lokuðum hópum ferðamanna

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að ef ná ætti hjarðónæmi í samfélaginu með náttúrulegum sýkingum myndi það hafa mjög neikvæð áhrif á heilbrigðiskerfið. Sem stendur segir Þórólfur ekki tímabært að tala um bóluefni sem myndu vernda fólk gegn smiti og eina lausnin í faraldrinum nú sé að reyna að ná upp betra ónæmi í samfélaginu með þeim bóluefnum sem standa til boða.

Ísraelskir miðlar greindu frá því í morgun að 30 ísraelskir ferðamenn sem staddir eru hér á landi séu smitaðir af kórónuveirunni. Þórólfur segir að nokkrir utan hópsins hafi smitast út frá þeim og nokkrar hópsýkingar af þessu tagi, innan lokaðra hópa erlendra ferðamanna, hafi komið upp.

„Þetta eru hópar ferðamanna sem eru lokaðir. Það er nóg að einn beri með sér smit, þá er mjög auðvelt fyrir allan hópinn að smitast. Það er greinilega það sem hefur gerst í þessum tilvikum,“ segir Þórólfur.

Ánægjulegar tölur en ekki endilega á niðurleið

Mun færri greindust smitaðir innanlands í gær og í fyrradag en verið hefur. Þórólfur segir það ánægjulegt en er ekki viss um að það sé hægt að túlka smittölurnar þannig að faraldurinn sé á niðurleið

„Vegna þess að við erum enn þá með tiltölulega hátt hlutfall af jákvæðum sýnum, um 3 til 4%. Enn greinist um helmingurinn utan sóttkvíar sem segir okkur að það sé meiri útbreiðsla í samfélaginu. Þannig að ég held að við þurfum að sjá aðeins í dag til þess að leggja einhverja vigt í þessar tölur helgarinnar, hvort þróunin sé sú að þetta sé í niðursveiflu. Vissulega eru þetta ánægjulegar tölur og við erum alla vega ekki að sjá uppsveiflu.“

Þung staða er á Landspítala vegna innlagna þar.
Þung staða er á Landspítala vegna innlagna þar. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

Reyna að auka verndina með fleiri skömmtum

Nú hefur verið rætt um bóluefni sem virka betur gegn Delta-afbrigði kórónuveirunnar, standa vonir til þess að bóluefni sem geta komið betur í veg fyrir smit en þau sem nú eru í umferð verði í boði fljótlega?

„Það er bara ekki tímabært að tala um sérstök bóluefni gegn Delta. Það hafa ekki komið neinar tilkynningar um það eða á hvaða stigi rannsóknir á þeim bóluefnum eru staddar eða hvert ferlið verður í markaðssetningu. Núna erum við bara með þessi bóluefni og það er engin tímasetning á því hvenær við gætum hugsanlega fengið önnur bóluefni.“

Er einhver lausn í sjónmáli sem gæti bundið endi á faraldurinn?  

„Það er engin lausn önnur en sú að reyna eins og hægt er að auka verndina hjá fólki í samfélaginu með því að gefa auka skammta af bóluefni. Við erum að gefa þeim sem hafa fengið bóluefni Janssen annan skammt, það mun örugglega vernda þá betur. Við erum að gefa auka skammt fólki með undirliggjandi sjúkdóma sem kannski svara bóluefninu verr en aðrir. Svo þurfum við að taka afstöðu til þess hvort við þurfum að gefa öllum auka skammt en við erum ekki komin á það stig,“ segir Þórólfur og heldur áfram:

„Það er engin önnur leið til að ná ónæmi í samfélaginu heldur en með svona bólusetningum og svo náttúrulegri sýkingu. Smit auka ónæmið í samfélaginu. Flestir sem smitast fá sýkinguna vægt en það eru nægilega margir sem fá hana nógu alvarlega til að setja spítalann á hliðina, eins og spítalinn hefur  lýst sjálfur. Það er vandamálið sem við stöndum frammi fyrir núna.“

Yrði til neyðarástand með stóru N-i

Er einhver lausn að fara náttúrulegu leiðina og ná upp hjarðónæmi með því að leyfa fólki að smitast?

„Smit auka auðvitað ónæmið í samfélaginu en það þyrftu miklu fleiri að smitast til þess að ná hjarðónæmi. Við erum að fá þessa alvarlegu stöðu í heilbrigðiskerfinu, við getum ekki leyft veirunni að ganga eitthvað meira og hraðar í samfélaginu. Þá fáum við enn stærra vandamál á spítalanum með enn fleiri afleiddum vandamálum eins og á að vera öllum ljóst.“

Þórólfur bendir á að ef 10% þjóðarinnar myndu smitast á skömmum tíma, um 36.000 manns, myndi það leiða af sér 900 innlagnir á spítala.

„Ég veit ekki hvernig það ætti að ganga upp. Við þyrftum að leggja 130 manns á gjörgæslu, bara við 10% útbreiðslu. Það yrði algjört neyðarástand með stóru N-i.“

mbl.is