Sagði upp 400 læknum og sjúkraliðum

Björn Zoëga, forstjóri Karólínska háskólasjúkrahússins í Stokkhólmi, segir að hræðilegt ástand hafi verið uppi í rekstri stofnunarinnar þegar hann kom að stjórnun hennar um mitt ár 2019. Stjórnendur spítalans hafi jafnvel ekki getað áttað sig sjálfir á því hvað hafði farið svo illa úrskeiðis.

Innan skamms tíma neyddist hann til þess að grípa til harkalegra niðurskurðaraðgerða og í fyrstu atrennu sagði hann upp 550 starfsmönnum, einkum „skrifstofumönnum og yfirmönnum þeirra“ eins og hann orðar það. 

Björn er gestur í Dagmálum, viðtalsþætti sem aðgengilegur er áskrifendum Morgunblaðsins á mbl.is.

Stóð ekki steinn yfir steini

„Þegar ég kom að þessu þá vissi ég að það voru fjárhagsvandræði, að það voru vandræði með móralinn og stoltið var sært og ýmislegt annað. En það stóð ekki steinn yfir steini í fjármálunum, það var bara ráðið fólk endalaust í alla kanta og beðið um meira og meira fólk þótt ekki væru til peningar fyrir því. Svo fór framleiðslan niður líka þannig að þetta var komið í vondan spíral.“

Hálfu ári eftir fyrstu uppsagnarhrinuna greip Björn að nýju til niðurskurðarhnífsins, enda ljóst að enn þyrfti að stoppa upp í gat vegna hallareksturs á spítalanum.

„Hálfu ári seinna vorum við búin að fara í gegnum spítalann og sortera eins mikið og hægt var og þá þurfti ég að segja upp læknum og sjúkraliðum en ekki hjúkrunarfræðingum. Samtals vorum við að glíma við um 400 manns þar. Núna erum við sirka 800 og 900 færri en þegar ég mætti á svæðið.“

Framleiðslan aukist

Þrátt fyrir hinar miklu uppsagnir sem ráðist var í hafa umsvif spítalans ekki verið meiri en einmitt nú. Þegar Björn tók við verkefninu í apríl 2019 voru u.þ.b. 950 sjúkrarúm á spítalanum og hafði mörgum verið lokað vegna manneklu, einkum skorts á hjúkrunarfræðingum.

Í dag eru 1.200 sjúkrarúm í notkun í starfseminni, þrátt fyrir nærri 1.000 færri starfsmenn og sama fjölda hjúkrunarfræðinga og áður.

Starfsánægjan aukist

Björn segir að starfsánægja hafi aukist í tengslum við yfirgripsmiklar breytingar á starfseminni. Mestu máli hafi skipt að skilgreina starfsemina upp á nýtt. Hún væri fyrir sjúklingana.

„Fólkið sem var að vinna með sjúklingana var aðalatriðið og við vorum að einfalda hlutina í stað þess að flækja þá, sem var búið að gera mikið því miður.“

Frátafir vegna veikinda hafa dregist saman hjá starfsfólki frá því að ráðist var í breytingarnar að sögn Björns. Þá er starfsmannavelta nú minni en nokkru sinni fyrr í starfsemi spítalans.

Ári eftir að Björn tók við stjórn sjúkrahússins var það útnefnt tíunda besta sjúkrahús í heimi á alþjóðlegum lista tímaritsins Newsweek. Í mars síðastliðnum rataði það í sjöunda sætið, fast á hæla Charité-spítalans í Berlín. Enginn evrópskur spítali fer hærra á listanum, aðeins bandarískar heilbrigðisstofnanir þar sem Mayo Clinic í Rochester í Minnesota trónir á toppnum.

Viðtalið við Björn má nálgast í heild sinni hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert