Blaut biðröð í dag, handbremsubeygja í gær

Röðin kunnuglega við Suðurlandsbraut í dag.
Röðin kunnuglega við Suðurlandsbraut í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Töluverð röð hefur myndast fyrir utan Suðurlandsbraut 34 í dag, þar sem fólk safnast saman í próf fyrir kórónuveirunni. Oft hefur gert betra veður en nú, fyrir þá sem bíða fyrir utan húsið eftir því að komast inn í skimun.

Skýjað, súld, suðvestan fimm metrar á sekúndu, segir Veðurstofan. Hiti tólf stig. Veðrið hefur líka verið verra.

Fyrir þá flesta er þetta heldur eflaust ekki í fyrsta sinn sem gengist er undir skimun, nú þegar um eitt og hálft ár er liðið frá því veiran gerði hér fyrst strandhögg.

Tvö þúsund einkennasýnatökur

Gert er ráð fyrir að tekin verði sýni úr að minnsta kosti tvö þúsund manns í dag vegna einkenna, að sögn Ragnheiðar Óskar Erlendsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

„Það er alveg slatti. Og það er mikið að gera á öllum vígstöðvum,“ bætir hún við og bendir á að líklega sé ívið betri mæting nú í dag en í gær, í bólusetningu með örvunarskömmtum í Laugardalshöll.

Bólusett er með efni Moderna í dag og með efni Pfizer á morgun. Dræm þátttaka var í gær eins og mbl.is greindi þá frá.

Ekki voru margir í bólusetningu eftir hádegi í dag, þegar …
Ekki voru margir í bólusetningu eftir hádegi í dag, þegar blaðamaður mbl.is átti þar erindi. mbl.is/Karítas

„Þetta var tæpt“

Raunar svo dræm að starfsfólki heilsugæslunnar leist ekki á blikuna í gær, eftir að hafa blandað um sex til sjö þúsund skammta.

„Þá var bara handbremsubeygja og breytt um stefnu, og við náðum að senda á hjúkrunarheimili. Þau tóku um þúsund skammta, þannig að þetta slapp til. En þetta var tæpt,“ segir Ragnheiður.

„Í dag blönduðum við því bara helminginn, en þurftum svo að blanda aðeins meira, þannig að vonandi er þetta aðeins betri mæting.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert