Komið í ljós hver ber ábyrgð á lekanum

60 ára gömul vatnslögn gaf sig í janúar síðastliðinn, svo …
60 ára gömul vatnslögn gaf sig í janúar síðastliðinn, svo að háskólinn fór á flot. Komið er í ljós hver ber ábyrgð á tjóninu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir að matsskýrsla sem varðar það hver ber ábyrgð á vatnsleka í húsakynnum skólans sé tilbúin og hafi verið afhent skólastjórnendum.

Byggingar skólans fóru á flot í janúar síðastliðnum eftir að 60 ára gömul vatnslögn við Suðurgötu gaf sig.

Jón er ekki tilbúinn að greina frá því hvað kemur þar fram þar sem beðið er eftir annarri matsskýrslu á umfangi tjónsins. Þegar hún hefur skilað sér munu skólastjórnendur funda með aðilum málsins. 

Í byrjun mars fóru fram skýrslutökur vegna vatnstjónsins í HÍ, sem gæti hlaupið á hundruðum milljóna króna, en nokkrar stofur urðu svo illa úti að þær verða líklegast ekki nothæfar fyrr en á vormisseri ársins 2022. 

Margar stofur eru illa leiknar eftir lekann.
Margar stofur eru illa leiknar eftir lekann. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óljóst hvort háskólinn höfði mál

Mun háskólinn höfða skaðabótamál gegn einhverjum?

„Eftir að matsskýrslan um umfang tjónsins kemur til okkar munu aðilar málsins þurfa að kynna sér hana og eftir það munu væntanlega hefjast einhverjar samningaviðræður,“ segir hann og vonast til þess að hægt verði að leysa farsællega úr málunum.

Í mars voru þá tekn­ar skýrsl­ur af full­trú­um Veitna, VÍS, Mann­vits, SS Verktaks, TM trygg­inga og Varðar trygg­inga en tilgangur skýrslutökunnar var að afla gagna og sannana ef upp kemur ágreiningur um hver beri ábyrgð í málinu.

Jón Atli vonast til þess að síðari matsskýrslan skili sér bráðlega en vonir stóðu til að úrbætur gætu hafist í ágúst svo hægt væri að taka stofur í notkun fljótlega. Ljóst er að þær fyrirætlanir ætla ekki að ganga eftir, þar sem ekkert bólar enn á matsskýrslunni.

Bráðabirgðagreining benti til mistaka af hálfu Veitna

Mistök voru gerð við framkvæmdir á vegum Veitna við Suðurgötu, sem ollu því að stofnlögn vatns fór í sundur þannig að vatn flæddi inn í byggingar háskólans, að því er bráðabirgðaniðurstöður greiningar starfsfólks Veitna leiddu í ljós skömmu eftir lekann.

Það er á hendi tryggingafélaga að ákvarða bótaábyrgð en í tilkynningu sem barst frá Veitum í kjölfar niðurstaðnanna var atvikið sagt litið alvarlegum augum innan Veitna og þegar í stað var hafin rýni á verklagi og samskiptum allra sem að framkvæmdum á vegum fyrirtækisins koma.

mbl.is