Flýgur um heiminn yngst kvenna

Hún segir stefnuna alltaf verið sett á flugævintýrið milli framhaldsskóla …
Hún segir stefnuna alltaf verið sett á flugævintýrið milli framhaldsskóla og háskóla, en báðir foreldrar hennar eru flugmenn. Instagram/FlyZolo

Hin 19 ára flugkona Zara Rutherford lendir á Reykjavíkurflugvelli á morgun í sínu þriðja stoppi á leið sinni umhverfis jörðina. Í dag flýgur hún af stað frá heimalandi sínu Belgíu og snýr ekki aftur fyrr en 4. nóvember, þremur mánuðum og 52 löndum síðar.

Rutherford ætlar sér að verða yngsta konan í sögunni til þess að fljúga hringinn í kring um jarðkringluna ein síns liðs.

Vissi ekki að flugævintýrið yrði að heimsmeti

Hún var í fullum undirbúningi fyrir ferðalagið þegar blaðamaður náði tali af henni. „Jú ég legg af stað á morgun, það fer eftir veðri en jú það stefnir í það,“ segir hún í samtali við mbl.is.

Hún segir að stefnan hafi alltaf verið sett á flugævintýrið milli framhaldsskóla og háskóla, en báðir foreldrar hennar eru flugmenn. Hún segir föður sinn yfir sig hrifinn og hjálpi sér mikið. Móðir hennar er þó aðeins varkárari. „Ég náði að sannfæra hana.“

Rutherford með vélinni.
Rutherford með vélinni. Instagram/FlyZolo

Rutherford vissi ekki í fyrstu að ævintýrið sitt yrði að heimsmeti. „Ég gerði mér ekki einu sinni grein fyrir því að ég yrði yngsta konan. Það var ekki fyrr en ég fór að gera smá heimildavinnu að ég sá að ég gæti orðið fyrsti Belginn og yngsta konan til að fljúga ein hringinn í kring um jörðina.“

Spennt að fljúga yfir eldgosið

Hún segist spennt að koma til Íslands og þá aðallega að fljúga yfir eldgosið. Það væri þó ekki í fyrsta skipti sem hún sæi það því hún var hér á landi fyrir um þremur mánuðum síðan. „Ég er mjög spennt að sjá það aftur. Það var rosalega fallegt.“

Undanfarnar vikur hefur hún verið í fullum undirbúningi. Hún hefur flogið mikið, aðallega milli landa, farið í næturflug og gert öryggisráðstafanir ef eitthvað skildi koma upp á.

Þá hefur hún staðið í ströngu til að fá lendingarleyfi í mörgum af þeim 52 löndum sem hún heimsækir á leið sinni. Erfiðast var að fá slíkt leyfi í Rússlandi og var einnig þrautarganga að fá slík leyfi í mörgum löndum Asíu. Enn á hún þó eftir að fá leyfi í Kína.

Hér má sjá Rutherford æfa sig að komast úr flugvél í vatni.

View this post on Instagram

A post shared by FlyZolo (@fly.zolo)

Rosalegar vegalengdir á litlu eldsneyti

Rutherford mun kolefnisjafna ferðina og gott betur en hún hyggst planta trjám fyrir 600 evrur, tvöfalt það sem þarf til að kolefnisjafna. Flugvélin sem hún notar, Shark ultralight, notar þó minna eldsneyti í allri ferðinni en venjuleg farþegaþota á 10 mínútum. Vélin er jafnframt hraðskreiðasta fisflugvél heims og sérhönnuð fyrir lengri drægni, en Shark styrkir ferðalagið.

„Þess vegna valdi ég hana, hún kemst rosalegar vegalengdir með aðeins örlitlu magni af eldsneyti. Mig langar til þess að gera þetta aftur eftir nokkur ár á annað hvort vetnis- eða rafknúinni vél. Tæknin er ekki alveg tilbúin núna.“

Vill kveikja flugáhugann hjá ungum stelpum

Sú sem á metið núna, hin bandaríska Shaesta Waiz, var 30 ára þegar hún flaug hringinn í kring um jörðina. Yngsti karlkyns einstaklingurinn, Mason Andrew, var aftur á móti 18 ára og fimm mánaða þegar hann flaug. Rutherford segir að þennan mikla aldursmun methafa megi skýra með því hversu mikið fleiri karlar eru flugmenn heldur en konur.

Því vilji hún þó breyta. „Ég vona að ég nái að kveikja meiri áhuga hjá stelpum á flugi.“ Hún er með verkefninu að styrkja tvö samtök sem snúast um að hvetja ungar stúlkur og konur til að fara út í raungreinar. Þar er um að ræða samtök áðurnefndrar Shaestu Waiz „Dreams Soar“ auk samtakanna „Girls Who Code“.

Markmiðið er að skoða skóla í hverju landi sem hún heimsækir, þá sérstaklega ungar stúlkur til þess að veita þeim innblástur. „Auk þess langar mig til þess að gista hjá heimafólki á hverjum stað. Það mun gera upplifunina ríkari.“

Nánar um ferðalagið auk styrktaraðila Zöru Rutherfords má sjá á vefsíðu hennar hér.

mbl.is