„Meiri háttar mistök“ að sleppa sóttkví bólusettra

Sóttvarnalækni líst ekki vel á að sleppa sóttkví alfarið fyrir …
Sóttvarnalækni líst ekki vel á að sleppa sóttkví alfarið fyrir fólk sem hefur verið berskjaldað fyrir veirunni þótt það sé bólusett. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir telur að það væru „meiri háttar mistök“ og „ávísun á hraðari útbreiðslu veirunnar“ að leyfa bólusettum að sleppa við sóttkví hafi þeir verið útsettir fyrir kórónuveirunni.

Til skoðunar er að breyta reglum um sóttkví fyrir bólusetta.

„Við viljum reyna að gera þetta eins lítið íþyngjandi og mögulegt er,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is.

Fleiri börn leggjast inn vegna Delta

Hann minnir á að staðan í faraldrinum sé erfið vegna Delta-afbrigðis kórónuveirunnar. Það er enn meira smitandi en fyrri afbrigði og er auk þess alvarlegra fyrir börn en fyrri afbrigði.

„Upplýsingar frá Bandaríkjunum eru á þann veg að það séu fleiri börn að leggjast inn og fleiri börn fái mjög alvarlegar afleiðingar eftir smit af völdum Covid. Við þurfum að gæta að þessu, þetta snýst ekki bara um það að hafa sóttkvíarreglur eins lítið íþyngjandi og mögulegt er, við þurfum að láta þær virka vegna þess að það hefur verið kjarninn í því sem við höfum gert fram að þessu.“

Þórólfur segir að rúmlega 60% þeirra sem hafa greinst síðasta …
Þórólfur segir að rúmlega 60% þeirra sem hafa greinst síðasta einn og hálfa mánuðinn hafi verið bólusett. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur segir að vissulega hafi verið bent á að Norðurlöndin láti bólusetta almennt ekki sæta sóttkví.

„Ég held að það séu meiri háttar mistök hjá félögum okkar á Norðurlöndunum að gera það vegna þess að við sjáum hjá okkur að af þessum 3.100 sem hafa greinst með smit hér frá 1. júlí eru rúmlega 60% fullbólusett.

Rúmlega þriðjungurinn af þeim var í sóttkví við greiningu. Það segir okkur að það að ætla að sleppa sóttkví fyrir bólusetta sem hafa klárlega verið útsettir eru meiri háttar mistök og ávísun á hraðari útbreiðslu veirunnar,“ segir Þórólfur.

mbl.is