Tillögur Þórólfs um framtíðarfyrirkomulag

Innanlands telur Þórólfur mikilvægt að efla áfallaþol og getu heilbrigðiskerfisins.
Innanlands telur Þórólfur mikilvægt að efla áfallaþol og getu heilbrigðiskerfisins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir telur að takmarkanir innanlands þurfi að vera í gildi á meðan Covid-19 geisar í heiminum. Þá gerir hann ráð fyrir að örvunarskammtar verði gefnir reglulega eða ný bóluefni og að koma þurfi á fót reglubundnum skimunum.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í minnisblaði sem Þórólfur sendi Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra 11. ágúst, um framtíðarfyrirkomulag sóttvarnaaðgerða innanlands og á landamærunum. 

„Sjúkdómurinn er hvergi á undanhaldi í heiminum og þó að tök náist á faraldrinum á Íslandi þá munum við búa við stöðuga ógn um að veiran berist hingað til lands og valdi hér útbreiddri sýkingu,“ ritar Þórólfur í minnisblaðinu. 

Sýna fram á neikvætt próf á stærri viðburðum

Innanlands telur Þórólfur mikilvægt að efla áfallaþol og getu heilbrigðiskerfisins.

Þá telur hann að fjöldatakmörk eigi að miðast við 200 manns og að á stærri viðburðum skuli gestir sýna fram á neikvætt próf sem sé ekki eldra en 24 til 48 klukkustunda gamalt. 

Hann leggur til áframhaldandi eins metra nándarreglu og grímuskyldu við ákveðnar aðstæður. Sund- og baðstaðir verði áfram opnir ásamt líkamsræktarstöðvum. Veitingastaðir, skemmtistaðir og barir séu opnir til klukkan 23. 

Gæti þurft að grípa til hertra aðgerða í stuttan tíma

Þórólfur leggur til að engar takmarkanir verði á skólastarfi en áhersla lögð á almennar sóttvarnir.

„Ofangreindar aðgerðir verði almennar takmarkanir sem verði við líði þar til faraldurinn verður um garð genginn. Gera þarf ráð fyrir að tímabundið þurfi að grípa til hertra aðgerða í sérstökum tilvikum í stuttan tíma,“ segir í minnisblaðinu.

Þá segir að reglulega þurfi að gefa örvunarskammta eða bólusetja með nýjum bóluefnum. Einnig þurfi að gera leiðbeiningar um reglubundnar skimanir í fyrirtækjum og á vinnustöðvum. Skylda þurfi reglubundnar skimanir þar sem viðkvæm starfsemi fer fram svo sem á heilbrigðisstofnunum og hjúkrunarheimilum.

Leitað verði leiða til að takmarka fjölda ferðamanna

Hann telur að mikilvægast sé að tryggja landamærin og lágmarka flutning veirunnar til landsins. Því leggur hann til að allir farþegar verði áfram krafðir um neikvætt Covid-próf bæði áður en þeir fara um borð og við komuna til landsins.

Sömuleiðis verði allir farþegar, og þar á meðal börn, skimaðir við komuna til landsins. Tvöföld skimun og sóttkví gildi áfram fyrir þá sem geti ekki framvísað gildum vottorðum.

Ef ekki verður hægt að anna ofangreindum skimunum vegna fjölda ferðamanna þá legg ég til að leitað verði leiða til takmarka fjölda ferðamanna við þann fjölda sem okkar sóttvarnaráðstafanir ráða við,“ bætir Þórólfur við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert