Ber ekki að endurgreiða

Reykjavíkurmaraþoninu hefur verið aflýst.
Reykjavíkurmaraþoninu hefur verið aflýst. mbl.is/Árni Sæberg

„Í skilmálunum ber okkur ekki að endurgreiða en okkur þykir þetta það leiðinlegt að við ákváðum að fara þessa leið, að gefa fólki gjafabréf sem það getur þá notað á næsta ári,“ segir Silja Úlfarsdóttir, upplýsingafulltrúi Íþróttabandalags Reykjavíkur. 

Tekin hefur verið ákvörðun um að aflýsa Reykjavíkurmaraþoninu sem hafði áður verið frestað til 18. september. Þeir sem voru skráðir til leiks fá ekki endurgreitt í peningum en ÍBR hefur tekið ákvörðun um að fólk fái gjafabréf að þeirri upphæð sem það keypti miðann á. 

Á von á að fólk sýni skilning

Heilmikil vinna fer fram innanhúss til að sigta út hvað hver og einn á inni hjá bandalaginu enda voru fyrstu miðarnir ódýrari en þeir síðari. 

Gjafabréfið gildir á alla viðburði ÍBR en næsti viðburður er norðurljósahlaupið í byrjun árs, miðnæturhlaup í júní og Laugarvegshlaupið í júlí. Svo næsta Reykjavíkurmaraþon í ágúst. 

Silja á ekki von á öðru en að fólk sýni þessu skilning. „Ég vona að fólk sé bara klárt í þessa Covid-baráttu með okkur. Við erum að reyna að gera eins gott úr þessum slæmu aðstæðum og við getum.“

Hlauptu þína leið

Fólk er hvatt til að taka þátt í átakinu „hlauptu þína leið,“ til þess að höggið verði minna fyrir góðgerðarfélögin. Átakið var einnig í fyrra og gekk mjög vel að sögn Silju.

Þeir sem voru skráðir í Reykjavíkurmaraþonið í ár hafa aðgang og geta skráð sig fyrir góðgerðarfélagi og hlaupið á eigin vegum.

Aðrir geta ennþá skráð sig og kostar miðinn aðeins 1.000 krónur, samanborið við það að miði í Reykjavíkurmaraþonið kostar hátt í 14.000 krónur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert