Veldisvöxtur gæti orðið í fjölda fólks í sóttkví

Jón Pétur Zimsen, skólastjóri Melaskóla.
Jón Pétur Zimsen, skólastjóri Melaskóla. mbl.is/Hari

Skólastjórnendur vinna eftir fyrirmælum stjórnvalda og reyna að bjóða börnum upp á óskert skólastarf, en persónulegar smitvarnir verða í hávegum hafðar. Miðað við háa smittíðni er ekki ólíklegt að upp komi smit og stórir hópar verði skikkaðir í sóttkví í samræmi við núgildandi reglur. Ekki liggja fyrir viðbragðsáætlanir en skólastjórnendur segja starfsfólk búa að reynslu frá fyrra skólaári. Bregðast þurfi við hverju tilfelli þegar og ef það kemur upp.

Nú þegar hafa komið upp tilfelli þar sem smit greinast á leikskólum með þeim afleiðingum að starfsemin leggst af, starfsfólk og börn fara í sóttkví. Hefur það í för með sér heilmikið rask fyrir öll heimilin sem eiga í hlut og vinnustaði foreldranna.

„Ég myndi vilja breyta reglum um sóttkví hjá einkennalausum, börnum og skólastarfsfólki. Það verður allt komið í lás eftir eina til tvær vikur ef við höldum óbreyttum reglum um sóttkví. Hjúkrunarfræðingar eiga líka börn,“ segir Jón Pétur Zimsen, skólastjóri Melaskóla. Skólar standa frammi fyrir því að þurfa að vega og meta hve mikið megi skaða skólakerfið til að minnka líkur á smitum og sóttkví.

Jóhanna María Agnarsdóttir, skólastjóri Brekkuskóla á Akureyri, segir að ef grípa þurfi í fjarnám verði hægt að slá því upp á einum eða tveimur dögum án mikillar fyrirhafnar.

Kennsla hefst í næstu viku

Skólastarf hefst á ný eftir helgi en grunnskólarnir eru nú á fullu að undirbúa kennsluna. Grunnskólinn á Seltjarnarnesi og Brekkuskóli eru ekki með eiginlega skólasetningu heldur byrja þeir á einstaklingsviðtölum og voru byrjaðir á því fyrirkomulagi fyrir tíma heimsfaraldursins. Brekkuskóli ætlar sér að hafa sín viðtöl í fjarfundaformi en á Seltjarnarnesi verða þau með hefðbundnu sniði.

Í Melaskóla í Reykjavík og Sunnuhlíðarskóla á Selfossi verður þó skólasetning en foreldrar fá ekki að vera viðstaddir og nemendum verður skipt upp í hópa sem mæta á ólíkum tímum. Stemmning meðal starfsfólks er góð og tilhlökkun að taka á móti nemendum.

„Getum ekki gert hvort tveggja“

Borgaryfirvöld hafa hvatt skóla til að halda hópum litlum og takmarka þannig raskið sem kann að fylgja ef smit greinist meðal nemenda. Á sama tíma er gerð krafa um að skólahald verði óskert. Jón Pétur Zimsen segir þetta andstæður. „Við getum ekki gert hvort tveggja. Þegar við hólfum af þá skaðar það skólastarfið.“ Jón Pétur bendir á að ef við höldum samfélaginu gangandi muni hinn raunverulegi veldisvöxtur birtast í fjölda þeirra sem sæta sóttkví.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert