Bærinn og höfnin talin í mestri hættu

Heimaey.
Heimaey. mbl.is/Sigurður Bogi

Æskilegt er að skipulag Vestmannaeyja miði að því að draga úr athöfnum og uppbyggingu á svæðum sem líklegast er að verði fyrir hrauni og gjóskufalli í nýju eldgosi. Það er einmitt á norðanverðri Heimaey, þar sem höfnin er og meginhluti bæjarins. Kemur þessi ábending fram í forgreiningu á hættu vegna eldgoss í eldstöðvakerfi Vestmannaeyja þar sem fjallað er um áhrif hraunrennslis og öskufalls á Heimaey.

Fyrstu niðurstöður þessa langtímahættumats eru kynntar í skýrslu Veðurstofunnar. Matið er hluti af verkefni um heildaráhættumat vegna eldgosa á Íslandi.

Vestmannaeyjar eru sú byggð hér á landi sem er í mestri nálægð við eldfjall enda stendur bærinn á virkri eldstöð. Nægir að rifja upp gosið 1973 í því sambandi.

Í skýrslunni er farið yfir niðurstöður líkanaútreikninga um rennsli hrauna og gjósku frá gosum á mismunandi stöðum innan eldstöðvakerfisins til að meta vá af þeirra völdum og áhrif á samfélagið. Niðurstöður benda til að 3-8% líkur séu á því að gosop opnist á Heimaey, ef miðað er við að möguleiki sé talinn á að gos geti komið upp í öllu kerfinu. Aldri gosopa er ekki gefið vægi við líkindareikninga og því ekki reynt að meta líkur á því hvenær næst muni gjósa á eldstöðvarkerfinu.

Mótvægisaðgerðir mikilvægar

Vestmannaeyjabær og hafnarsvæðið á norðurhluta Heimaeyjar eru þau svæði sem oftast verða fyrir rennsli hrauns úr miðlungs og stórum flæðigosum á Heimaey, samkvæmt útreikningum. Nærri allir innviðir Vestmannaeyja geta orðið fyrir hrauni úr stóru hraungosi sem ætti upptök á Heimaey. Verði meðalstórt gjóskugos á eða við Heimaey og stendur í að minnsta kosti sex daga þegar vindar standa yfir byggðina væri líklegt að þök helmings íbúðarhúsa bæjarins myndu láta undan þunga blautrar gjósku.

Farið er yfir mikilvægi mótvægisaðgerða og talið eðlilegt að byggt verði á reynslunni frá Vestmannaeyjagosinu árið 1973. Bent er á mikilvægi þess að hanna og byggja mannvirki með tilliti til þeirrar eldgosavár sem er til staðar til að draga úr tjóni vegna hugsanlegs eldgoss. Þá er talið æskilegt að skipulag svæðisins miði að því að draga úr athöfnum og uppbyggingu á þeim svæðum sem líklegust eru til að verða fyrir hrauni og gjóskufalli. Bent er á þann möguleika að reynt verði að verja byggð með byggingu hraunvarnargarða og kælingu hrauns, eins og gert var 1973. „Mikilvægustu mótvægisaðgerðir vegna eldfjallavár á Heimaey eru án efa fræðsla samfélagsins um mögulega vá.“ Jafnframt er bent á að fólksfjöldi á Heimaey sé mjög breytilegur og mikill fjöldi fólks heimsæki eyjuna á stórum atburðum á sumrin, svo sem Þjóðhátíð. Taka verði tillit til þess við gerð rýmingaráætlana.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »