Viðbúnaður er nú á Þjóðminjasafni Íslands vegna eldgossins í Geldingadölum en viðkvæmum safngripum er talin stafa hætta af menguninni frá gosinu sem geti valdið óafturkræfum skemmdum á gripum ef ekki er hafður vari á.
Að sögn Söndru Sifjar Einarsdóttur, forvarðar á Þjóðminjasafninu, hefur litakóðunarkerfi verið tekið upp sem starfsfólk safnsins þarf að fylgjast með og taka viðeigandi ráðstafanir gildi í byrjun hvers dags.
„Þegar gasmengun fer yfir ákveðin gildi lokum við fyrir loftræstikerfi og innsiglum geymslur með viðkvæmustu gripunum. Á þeim dögum eru sendar út gular eða rauðar viðvaranir til starfsfólks safnsins. Aðgengi að geymslum safnsins er mjög takmarkað við þessar aðstæður til þess að koma í veg fyrir að gasmengun komist að safnkostinum. Þegar gasgildi eru í lágmarki er grænn dagur og engar takmarkanir í gildi.“
Sandra segir brennisteinsdíoxíð (SO 2 ) í gosmekkinum hættulegt safngripum þar sem það veldur meðal annars tæringu í málmum og fölnun lita, auk þess sem textíll getur orðið brothættur og stökkur. Hefur brennisteinsdíoxíð einstaklega slæm áhrif á silfur og eru því silfurgripir og ljósmyndir í hvað mestri hættu.
„Í ljósmyndum eru agnarsmá silfursölt sem hvarfast mjög auðveldlega við brennistein. Vegna þess hve smáar silfuragnirnar eru þarf mjög lítið magn gass til þess að valda skemmdum á ljósmyndum og filmum.“
Aðspurð segir Sandra Þjóðminjasafnið ekki hafa þurft að grípa til þessa viðbúnaðar áður, hins vegar hafi þau verið vel undirbúin þegar gosið hófst. „Það er mjög mikilvægt að verja safngripi gegn brennisteinsdíoxíði. Vöktun af þessari gerð er alveg ný hjá okkur en um leið og byrjað var að vara við eldgosi fórum við að skipuleggja til hvaða aðgerða yrði gripið skyldi fara að gjósa. '
Sú áætlun var virkjuð við upphaf eldgossins og forverðir og umsjónarmenn fasteigna voru kallaðir út og geymslur innsiglaðar. Í framhaldinu fórum við að hugsa um það hvernig við getum lifað með þessu, auðveldað aðgengi starfsfólks að safnkostinum en að sama skapi tryggt öryggi gripanna.“