Vilja ekki að aðrar konur gangi í gegnum það sama

Hilma Ósk Hilmarsdóttir, lögfræðingur á lögmannsstofunni Sævar Þór og partners, …
Hilma Ósk Hilmarsdóttir, lögfræðingur á lögmannsstofunni Sævar Þór og partners, fer með mál kvennanna. Ljósmynd/Aðsend

Um tíu konur hafa kvartað til landlæknis og gert bótakröfu vegna vanrækslu og mistaka við skimanir eftir brjóstakrabbameini og sérskoðanir á brjóstum. Þær vilja ekki að aðrar konur lendi í því sem þær hafa þurft að upplifa.

Hilma Ósk Hilmarsdóttir, lögfræðingur á lögmannsstofunni Sævar Þór og partners, fer með mál kvennanna. Að hennar sögn tekur það 24 mánuði að fá niðurstöðu úr málum sem þessum frá Landlæknisembættinu en hún vonar að hægt verði að semja um málið, enda séu konurnar búnar að ganga í gegnum nóg. 

Rangar niðurstöður úr skimunum

„Við erum með nokkur mál þar sem staðan er sú að í skimun eða sérskoðun er niðurstaðan að allt sé eðlilegt en stuttu síðar þegar þessar konur leita til skurðlæknis og vilja láta fjarlægja hnút í brjóstinu sem veldur þeim óþægindum kemur í ljós að það var krabbamein í þessum hnútum,“ segir Hilma.

„Þá hefur krabbameinið væntanlega verið til staðar þegar þær voru skimaðar eða skoðaðar og niðurstaðan því röng."

Hilma bendir á að tilgangurinn með skimunum sé að greina krabbameinið á forstigi eða hreinlega á byrjunarstigi svo hægt sé að grípa inn í strax. 

Árlega greinast 210 konur með brjóstakrabbamein á Íslandi og er …
Árlega greinast 210 konur með brjóstakrabbamein á Íslandi og er það algengasta krabbamein sem greinist hjá konum hér á landi. Ljósmynd/Krabbameinsfélagið

Illgreinanleg mynd tilefni til sérskoðunar

Í einhverjum tilvikum þar sem konur fengu ranga niðurstöðu segir Hilma að myndir hafi verið túlkaðar á þann veg að ekkert óeðlilegt væri að sjá, þegar raunin var sú að það var erfitt að greina myndina.

Illgreinanleg mynd ætti að hennar mati frekar að gefa tilefni til sérskoðunar. 

Einn skjólstæðinga Hilmu er kona sem var meinað um sérskoðun sökum þess að hún væri ekki nægilega gömul og sagt að ekkert væri að, eftir skimunina. Hún vildi fá sérskoðun þar sem hún fann fyrir einkennum.

Var þetta í september en konan fékk loks skoðun í janúar í gegnum heimilislækni sem hún segir hafa bjargað lífi sínu. Kom þá í ljós að hún var með fjögur æxli í öðru brjóstinu, var eitt þeirra sjö sentímetrar að stærð og meinið hafði náð yfir í eitlana.

Konan er nú á leið í brjóstnám og ætlar sér líka að láta fjarlægja heilbrigða brjóstið af ótta við að þurfa að ganga í gegnum sama ferlið aftur.

Fyrst var greint frá málinu á Vísi.

Treysta ekki kerfinu

Hilma segir ljóst að konur treysti ekki kerfinu og séu óttaslegnar. Margar finni líka fyrir kvíða eftir slæmar upplifanir, sem sé hættulegt enda geti það valdið því að konur hreinlega hætti að fara í skimun og leita sér aðstoðar. 

„Að þetta sé svona árið 2021 er galið,“ segir Hilma og á þá við tregðu kerfisins að hleypa konum sem finna fyrir einkennum í brjóstaskoðun.

Ef hagkvæmnissjónarmið ráða þar för bendir hún á að það hljóti að vera hagkvæmara fyrir ríkið að sinna skimunum og skoðunum almennilega og hleypa konum að en að grípa inn í þegar þær eru þegar komnar með krabbamein með tilheyrandi lyfjakostnaði. 

„Þær eiga rétt á því lögum samkvæmt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert