Endaði eins manns maraþon á pylsustoppi

Kjartani þótti táknrænt að fagna með pylsu enda mikill áhugamaður …
Kjartani þótti táknrænt að fagna með pylsu enda mikill áhugamaður um pylsur að eigin sögn. Brot úr myndskeiði

Kjartan Vídó Ólafsson hljóp heilt maraþon í gær, einn síns liðs, í minningu látins vinar síns. Hann stillti hlaupið sérstaklega af þannig að hann gæti fagnað því með pylsu á N1 um leið og því lyki. 

Kjartan segist ekki vera langhlaupari en hann skráði sig í heilt maraþon í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka. 

Venjan er að ræsa maraþonið á Menningarnótt, sem hefði átt að vera í gær en öllum viðburðum hennar var aflýst. Maraþoninu hafði verið frestað til 18. september en nýlega var tekin ákvörðun um að aflýsa því líka. Fólk var engu að síður hvatt til að hlaupa sína eigin leið á deginum og styrkja gott málefni. 




„Fyrst ég var kominn af stað“

Kjartan hélt sig aftur á móti við upprunalega dagsetningu. „Fyrst ég var kominn af stað  og búinn með 30 kílómetra ákvað ég bara að klára þetta í gær, var búinn að undirbúa hausinn undir það ef líkaminn yrði í lagi.“

Hann var ekki búinn að skrá sig í átakið hlauptu þína eigin leið en skorar á fólk að styrkja Krabbavörn í Vestmannaeyjum, sem einhverjir eru nú þegar búnir að gera en hann er ekki með yfirsýn yfir hve mikið safnaðist en hlaupið var ekki síður táknrænt.

„Margir vinir mínir hafa notið þjónustu Krabbavarnar, þar á meðal Gunnar Karl. Ég vildi því heiðra þetta góða félag og þá sem þau sinna og hjálpa.“

Gunnar Karl heitinn kemur hér í mark á Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka …
Gunnar Karl heitinn kemur hér í mark á Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka á sínum tíma í hjólastól, rétt á undan Kjartani.

Fagnaði með pulsu

Kjartan telur líklegt að hann hlaupi annað maraþon að ári. „Fyrst ég er byrjaður á þessu, nú er ég orðinn langhlaupari.“

Góð tónlist kom í staðinn fyrir stóran hóp af fólki og því var hlaupið ekki einmanalegt, að sögn Kjartans. 

Leiðin sem hann hljóp lá frá Garðabæ, kringum Vífilsstaðavatn og þaðan að Kaplakrika. Hann hljóp svo niður að sjó í Hafnarfirði og yfir að Bessastöðum. „Ég tók þá Álftanesið, svo Garðabæinn, þveraði Arnarnesið. Svo tók ég bara Kópavoginn allan og Kársnesið og stillti þetta þannig að ég vissi að ég myndi klára fyrir framan N1 í Fossvogi svo ég gæti fengið mér pulsu.“

Þetta var þó ekki besta pylsa sem Kjartan hefur smakka. „Ég var svo þreyttur að ég gat varla notið hennar en maður á að fagna öllu með því að fá sér góða pulsu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert