Fékk drep í brjóstið eftir krabbameinsleit

Konan fékk drep í brjóstið eftir að gat hafði verið …
Konan fékk drep í brjóstið eftir að gat hafði verið stungið á sílíkonpúða. Ljósmynd/Krabbameinsfélagið

Kona á fertugsaldri fékk drep í annað brjóstið eftir að hafa verið stungin ítrekað í það við krabbameinsleit á Landspítalanum í fyrra. 

Konan þurfti að láta fjarlægja brjóstapúða og undirgangast stórtæka aðgerð á brjósti vegna sýkingar eftir stungurnar, sem var orðin að drepi.

Hilma Ósk Hilmarsdóttir, fulltrúi og lögfræðingur á lögmannsstofunni Sævar Þór & partners, rekur mál konunnar sem hefur kvartað undan framkvæmdinni til Landlæknis og lagt fram bótakröfu á hendur Landspítalanum. 

Hilma Ósk Hilmarsdóttir, lögfræðingur á lögmannsstofunni Sævar Þór og partners, …
Hilma Ósk Hilmarsdóttir, lögfræðingur á lögmannsstofunni Sævar Þór og partners, fer með mál kvennanna. Ljósmynd/Aðsend

Mál konunnar er eitt nokkurra mála sem Hilma Ósk rekur fyrir konur sem hafa kvartað til land­lækn­is og gert bóta­kröfu vegna van­rækslu og mistaka við skiman­ir eft­ir brjóstakrabba­meini og sér­skoðanir á brjóst­um. 

Gat á sílikonpúða

Konan, sem ekki vill koma fram undir nafni, fór í sérskoðun og var stungin oft í sýnatöku. Hilma Ósk segir konuna hafa orðið fyrir miklu áfalli við málið.

„Hún þurfti að mæta aftur í síðustu viku í ástungu og kveið því mjög,“ segir Hilma Ósk. 

„Það var stungið svo oft á brjóstið. Það er eðlilegt að það þurfi tvisvar, kannski þrisvar. Hún var með sílikonpúða í brjósti. Þegar í ljós kom að hún var með sýkingu tóku hún og læknir hennar ákvörðun um að fjarlægja púðann. Við það kom í ljós að það var gat á púðanum – að öllum líkindum hefur verið stungið á púðann og svo myndast þetta drep í kjölfarið.“

Skaðinn á brjóstinu var óafturkræfur og þurfti að fjarlæga mikinn vef úr brjósti konunnar. „Hún er núna að eiga við andlegar afleiðingar. Þetta hafði auðvitað líka áhrif á útlit hennar. Þetta lítur alls ekki vel út,“ segir Hilma Ósk. 

Konan er ekki með krabbamein en hún situr eftir með annað brjóstið verulega afmyndað að sögn Hilmu Óskar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert