Útbreiðsla 5G nær til 50% landsmanna

Útbreiðsla 5G fjarskiptanetsins hefur vaxið hratt hér á landi það …
Útbreiðsla 5G fjarskiptanetsins hefur vaxið hratt hér á landi það veitir mun hraðara flæði upplýsinga en fyrirrennarar þess. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ísland er talið meðal fremstu ríkja heims í fjarskiptum og aðgengi að háhraðatengingum. Markmið stjórnvalda er að öll heimili og vinnustaðir á landinu eigi kost á nettengingum eftir ljósleiðara eða annarri tækni sem geti náð eins gígabita tengihraða.

Enn er þó nokkuð í land að því verði náð. 82% heimila og fyrirtækja eru með tengingu við ljósleiðara og 80% eru með aðgengi að eins gígabita gagnahraða. Bent er á í Grænbók um fjarskipti, sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið birti í samráðsgátt fyrr í sumar, að háhraðanetsvæðing samfélagsins sé langt komin en ekki lokið. Stefnt er að verklokum verkefnisins Ísland ljóstengt fyrir lok næsta árs og þá á ljósleiðaravæðingu utan þéttbýlis að verða að mestu lokið þótt enn sitji þá eftir um það bil 13 þúsund heimili (staðföng) í þéttbýliskjörnum á landsbyggðinni, sem ekki eiga enn kost á svo öflugri tengingu.

Uppbygging háhraðafarneta er einnig í fullum gangi og verkið hálfnað ef marka má útbreiðsluna til íbúa landsins. Í Grænbókinni kemur fram að á grundvelli tíðniúthlutunar árið 2019 muni uppbyggingu 5G í níu meðalstórum byggðakjörnum á landsbyggðinni ljúka á yfirstandandi ári. Útbreiðsla 5G í júní sl. náði þegar til um það bil 50% landsmanna og unnið er að frekari uppbyggingu í sumar. „Stefnt er að umfangsmestu úthlutun farnetstíðna sem fram hefur farið í lok árs 2021 eða byrjun 2022,“ segir í grænbókinni.

5G farsímamastur.
5G farsímamastur. AFP

Fjöldi umsagna við þetta stöðumat í grænbókinni hefur birst að undanförnu. Síminn bendir m.a. á að unnið hafi verið vel að verkefninu Ísland ljóstengt við lagningu ljósleiðara á þeim stöðum þar sem nánast óumdeilt sé að markaðslegar forsendur séu ekki fyrir hendi við uppbyggingu ljósleiðarakerfa. Eftir standi samt fjölmargir þéttbýlisstaðir þar sem ljósleiðari hefur ekki verið lagður og engin áform liggi fyrir um hvenær slíkar framkvæmdir muni eiga sér stað. Leggja hefði mátt fram stefnu og sýn á þetta fyrir talsvert löngu og það sé hlutverk eftirlitsaðila að vera ráðgefandi í þeim efnum.

„Staðan er hins vegar sú að eftirlitsaðilar hafa ekki komið með neinar tillögur eða lausnir í þessum efnum. Þvert á móti hefur stefna eftirlitsaðila frekar dregið úr hvata til fjárfestinga og þannig hægt á hugsanlegum verkefnum,“ segir í umsögn Símans, sem vill skýrar reglur um heimild til langtímasamninga milli heildsölu- og smásöluaðila sem myndi minnka áhættuna í fjárfestingum.

Samband íslenskra sveitarfélaga telur nauðsynlegt forgangsverkefni að gefa heimilum og vinnustöðum sem út af standa kost á að tengjast ljósleiðara eða sambærilegri tækni sem fyrst. Fjórðungssamband Vestfirðinga segir stöðu háhraðatenginga í þéttbýliskjörnum á Vestfjörðum óviðunandi.

Tengingar duga vel

Í athugasemdum Mílu kemur aftur á móti fram að þótt greining bendi til að um 13 þúsund heimili séu ekki með ljósleiðara þá sé það ekki svo að þessi heimili hafi ekki vel nothæft net. „Langstærstur hluti þessara heimila á kost á 50Mbps nettengingum sem í flestum löndum Evrópu telst í raun mjög góður hraði. Fyrir venjulega heimilisnotkun duga þessar tengingar vel og engin þjónusta yfir net er sjáanleg á alla næstu árum sem krefst meiri hraða,“ segir Míla.

Lítið farsímasamband

Í umsögn Vesturbyggðar segir að það sé mikið öryggismál fyrir vegfarendur að tryggt verði fullnægjandi farnetssamband á vegköflum þar sem farsímasamband er lítið sem ekkert. Þetta hafi m.a. sýnt sig síðasta vetur þar sem margir vegfarendur lentu í vandræðum á Dynjandisheiði og mikilvægt sé að unnt sé að ná í viðbragðsaðila. Nefnd eru fleiri dæmi um lítið sem ekkert farsímasamband, s.s. á Rauðasandsvegi sem liggur frá Örlygshafnarvegi og um Ketildalsveg um Arnarfjörð og Selárdal. Þá sé sambandið miðlungs eða slæmt á mörgum svæðum á vegkaflanum að Látrabjargi en um þá leið fari um 20 þúsund ferðamenn á hverju ári. Einnig sé þörf á auknu varaafli fyrir fjarskipti. Ekki nái allir í dreifbýli í Vesturbyggð gsm-sambandi eða hafi ljósleiðaratengingu og þurfi að treysta á koparlínur.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert