„Við veljum okkar eigin baráttu“

Elín Kona Eddudóttir fékk nafnabreytinguna loksins í gegn.
Elín Kona Eddudóttir fékk nafnabreytinguna loksins í gegn. Ljósmynd/Aðsend

Elín Kona Eddudóttir hefur loksins fengið að taka upp millinafnið Kona eftir tveggja ára baráttu. Mannanafnanefnd félst á þetta eftir að hafa verið tekin á teppið af umboðsmanni Alþingis, sem taldi fyrri niðurstöðu nefndarinnar ekki hafa verið samkvæmt lögum.

„Þetta er bara lítill sigur en mér finnst hann samt mikilvægur. Við veljum okkar eigin baráttu og ég ákvað að velja þessa,“ segir Elín en bætir við að Kristbjörg Kona Kristjánsdóttir hafi lent á sama vegg og hún, nokkrum árum áður.

Það var í maí 2019 sem mannanafnanefnd hafnaði umsókn Elínar um að taka upp millinafnið Kona, meðal annars með þeim rökum að nafnið bryti í bága við íslenskt málkerfi. Ári seinna komst umboðsmaður Alþingis að því að nefndin hefði ekki lagt fram viðhlítandi grundvöll fyrir ákvörðun sinni í málinu. 

Var málið því endurupptekið og komst mannanafnanefnd að þeirri niðurstöðu að Elín skyldi fá að bera nafnið og nafnið verður í kjölfarið fært á mannanafnaskrá. 

Einn skilaði sératkvæði og taldi merkinguna geta orðið nafnbera til ama

Þó var einn nefndarmaður sem skilaði sératkvæði í málinu, þar sem hann taldi eiginnafnið brjóta í bága við íslenskt málkerfi sem og að það gæti orðið nafnbera til ama. Auk þess væri merking nafnsins Kona „kvenmaður á ákveðnum aldri“ og gæti það orðið nafnbera til ama ef um væri að ræða barn sem fengi nafnið.

Sama er þó upp á teningnum hvað varðar eiginnafnið Karl – sé „karl“ flett upp í orðabók sést að merking þess er karlmaður, gamall maður, eiginmaður eða almúgamaður.

„Nú eru komin ný lög þar sem ekki má mismuna eftir kyni, konur mega heita Karl og við megum heita Drengur, það fer ekki fyrir mannanafnanefnd. En það er rosa skrýtið að þetta Konu-nafn hafi verið svona mikið vandamál,“ segir Elín að endingu.

mbl.is