Munu þurfa að laga húsið að hlutverkum sínum

Flokksleiðtogi Hjálpræðishersins segir það dásamlegt að fá börnin í húsið …
Flokksleiðtogi Hjálpræðishersins segir það dásamlegt að fá börnin í húsið og að skólastarfið fari vel af stað. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í dag mættu nemendur í öðrum til fjórða bekk Fossvogsskóla í húsnæði Hjálpræðishersins, þar sem skólastarf þeirra verður þar til færanlegar kennslustofur verða teknar í gagnið.

Húsnæði Hjálpræðishersins verður áfram notað í aðra starfsemi á tímabilinu og þá þarf bara að pakka saman skólastofum og setja upp aftur.

Hjördís Kristinsdóttir, svæðisforingi og flokksleiðtogi Hjálpræðishersins í Reykjavík, segir það dásamlegt að fá börnin í húsið og að skólastarfið fari vel af stað.

„Við erum líka búin að vera með leikjanámskeið hér í allt sumar sem var eins og prufukeyrsla. Þetta eru auðvitað fleiri börn.“

Börn í 2. til 4. bekk komu í skólann með …
Börn í 2. til 4. bekk komu í skólann með rútu úr Fossvoginum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hús byggt í kringum fólk

Spurð hvort húsnæðið sé að hennar mati vel til þess fallið að hýsa skólastarf segir Hjördís það vera góðan kost í þeirri stöðu sem er uppi. „Við erum með mjög góða hljóðvist og gott loftræstikerfi, þetta hús er byggt í kringum fólk.“

Starfsmenn Hjálpræðishersins og Fossvogsskóla unnu hörðum höndum alla helgina að því að undirbúa húsnæðið fyrir skólahald. „Þetta er auðvitað svolítið rask en ekkert sem ekki er hægt að vinna með.“  

Samkomusalnum hefur verið skipt upp og í samræmi við tillögur almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins er fjórði bekkur hafður út af fyrir sig, með sérinngang. Þannig er komið til móts við hundrað manna viðmiðið sem gildir í skólum. 

Pakka saman öllum skólastofum 

Í húsnæði Hjálpræðishersins er opið hús í hádeginu fyrir jaðarsetta einstaklinga þar sem þeir geta komið og fengið hádegismat. Hjördís segir að skólastarfið muni ekki hafa áhrif á þá starfsemi enda sé hún í öðru rými. 

Hjálpræðisherinn hefur þó verið að nýta húsnæðið, þar sem skólastarf verður, undir ýmsa aðra starfsemi og samkomur eða jafnvel leigt salinn út. 

„Við erum einmitt með stóran viðburð á sunnudaginn, þá þarf að pakka öllum skólastofum niður og taka þær svo upp aftur, við erum líka sjálf með aðstoð við jaðarsetta hópa í þessum kennslustofum.“

Það mun óumflýjanlega skapa aukið álag fyrir starfsfólk bæði skólans og Hjálpræðishersins, að þurfa reglulega að laga húsnæðið að ólíkum hlutverkum. 

Miðað er við að skólastarf verði í húsnæði Hjálpræðishersins þangað …
Miðað er við að skólastarf verði í húsnæði Hjálpræðishersins þangað til færanlegar kennslustofur verða teknar í gagnið. mbl.is/Kristinn Magnússon


 

Raunhæft að verði seinkun

Miðað er við að skólastarf verði í húsnæði Hjálpræðishersins þangað til færanlegar kennslustofur verða teknar í gagnið. 

„Það er talað um nokkrar vikur en grenndarkynningu er ekki einu sinni lokið á þessum stofum svo það er alveg raunhæft að það verði einhver seinkun.“

Ein rúta fyrir hvern árgang, en um 130 nemendur munu …
Ein rúta fyrir hvern árgang, en um 130 nemendur munu sækja skóla í hús Hjálpræðishersins. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is