Áætla að taka á móti 120 Afgönum

Ríkisstjórnin samþykkti tillögur flóttamannanefndar á fundi sínum í dag.
Ríkisstjórnin samþykkti tillögur flóttamannanefndar á fundi sínum í dag. mbl.is/Arnþór

Tekið verður á móti starfsfólki sem vann með og fyrir Atlantshafsbandalagið og fyrrverandi nemendum frá Afganistan við jafnréttisskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Fá makar og börn að fylgja með.

Íslensk stjórnvöld munu svo aðstoða þá Afgana sem eiga rétt á fjölskyldusameiningu  eða eru nú þegar komnir með dvaraleyfi en geta ekki ferðast á eigin vegum, að komast til landsins.

Um er bæði að ræða einstaklinga sem hafa fjölskyldutengsl hér sem og einstaklingar sem hyggjast hefja hér nám.

Í forgang verða settar umsóknir um fjölskyldusameiningu við Afgana búsetta hér á landi og fjárveiting aukin til þess að hraða umsóknunum. 

Endanlegur fjöldi fer eftir fjölskyldusameiningu

Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu en ríkisstjórnin samþykkti í dag tillögur flóttamannanefndar vegna ástandsins sem skapast hefur í Afganistan í kjölfar valdatöku talíbana. 

Áætlaður heildarfjöldi þeirra sem tekið verður á móti er 120 manns en hann liggur þó ekki endanlega fyrir. Erfitt er að meta fjöldann nákvæmlega þar sem hann fer eftir fjölskyldusameiningu. 

Í tilkynningunni segir: „Ísland hefur hingað til tekið á móti afgönsku kvótaflóttafólki í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og mun halda því áfram en í ljósi þess neyðarástands sem nú hefur skapast í Afganistan er hins vegar mikilvægt að íslensk stjórnvöld leggi sitt af mörkum nú þegar.“

Vilja stofna aðgerðarhóp

Flóttamannanefnd hefur enn fremur lagt til að stofnaður verði aðgerðarhópur til þess að útfæra framkvæmd tillagnanna, sem ljóst er að verður flókin. 

Huga þarf að flutningi  fólksins til landsins, tryggja öryggi þess og nauðsynlega aðstoð við komu til landsins. 

Ríkisstjórnin hefur óskað eftir því að flóttamannanefnd vinni áfram að málefnum flóttafólks frá Afganistan á komandi vikum.

Í nefndinni sitja fulltrúar félags- og barnamálaráðherra, dómsmálaráðherra og utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. Auk þess sitja áheyrnarfulltrúar frá Rauða krossinum á Íslandi, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Útlendingastofnun fundi nefndarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert