Einn á spítala vegna ivermektín-kremsins

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar
Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar Ljósmynd/Almannavarnir

„Já, þetta er sent út af gefnu tilefni,“ segir Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, um sameiginlega yfirlýsingu embættis landlæknis og Lyfjastofnunar þar sem áréttað er að Sool­antra-krem, sem inniheldur ivermektín, sé ekki til inntöku. 

„Þetta er vegna þess að það var einstaklingur lagður inn. Við brugðumst við með þeim hætti að þrengja ásvísunarréttinn þannig að hann er nú einungis bundinn við sérfræðinga í húðsjúkdómum,“ segir Rúna í samtali við mbl.is og ítrekar að kremið sé eingöngu til útvortis notkunar. 

Kanna umfang ávísana

„Það á alls ekki að bera á slímhúð og er hættulegt til inntöku.“

Spurð út í fjölda tilfella sem vitað er um slíka notkun kremsins segir Rúna að yfirlýsingin hafi verið send út í tilefni áðurgreindrar innlagnar. 

„Núna er verið að kanna hversu yfirgripsmikið þetta er, varðandi ávísanir og afgreiðslur og fleira. Það er á forræði embættis landlæknis.“ Rúna segir að áður hafi engar takmarkanir gilt um uppáskrift kremsins. 

Hún bætir við að kremið sé ætlað við húðvandamálum og ekki sé til bóta að bæta alvarlegum aukaverkunum við innbyrðinu þessa krems á Covid-sjúkt fólk. 

mbl.is