Fjórir kennarar hafa hætt í Fossvogsskóla

Börn fyrir utan húsnæði Hjálpræðishersins þar sem kennsla fer nú …
Börn fyrir utan húsnæði Hjálpræðishersins þar sem kennsla fer nú fram. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óvissa um framtíð Fossvogsskóla hefur ekki hjálpað til við að halda í kennara hjá skólanum en einn kennari hætti störfum þar óvænt fyrir helgi. Fjórir kennarar hafa alls hætt störfum við skólann síðan í vor.

Nú auglýsir Fossvogsskóli eftir starfsfólki og segir Ingibjörg Ýr Pálmadóttir, skólastjóri Fossvogsskóla, að mönnunin mætti vera betri. Ingibjörg hefur sjálf þurft að hlaupa til og sinna kennslu.

Í gær mættu nemendur í öðrum til fjórða bekk Fossvogsskóla í húsnæði Hjálpræðishersins, þar sem skólastarf þeirra verður þar til færanlegar kennslustofur verða teknar í gagnið.

„Það er kominn ákveðinn vendipunktur í þessu máli þegar Hjálpræðisherinn hleypur undir bagga með borginni,“ segir Eyþór Arnalds borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, um málið.

Hann metur borgina bæði ófæra um að útvega húsnæði, enda hafi hún þurft að leita á náðir Hjálpræðishersins, og ófæra um að taka ákvörðun.

Eyþór vísar þá til könnunar sem foreldrum var boðið að taka þátt í á föstudag til þess að hafa áhrif á ákvörðun um hvar skólastarf yrði til húsa uns færanlegar kennslustofur væru tilbúnar. Hefur hún hlotið mikla gagnrýni.

Ómerkilegt þykir Eyþóri að ábyrgðinni á ákvarðanatökunni hafi verið ýtt yfir á foreldra með könnun sem hann metur stórgallaða. „Persónuverndarsjónarmiðum var ábótavant, svo var hún opin og fresturinn skammur.“

Eyþór bendir á að það sé kaldhæðnislegt að Hjálpræðisherinn taki nú á móti nemendum í húsnæði sem stendur á lóð sem borgaryfirvöld neituðu að láta Hjálpræðisherinn hafa, nema gegn gjaldi, á sínum tíma. „Nú er gott að hafa Hjálpræðisherinn.“

Lögum samkvæmt fá trúfélög úthlutað lóðum fyrir starfsemi sína endurgjaldslaust. Hjálpræðisherinn er skilgreindur sem trúfélag, en þegar hann sótti um að fá úthlutað lóð fékk hann það ekki. Var litið svo á að Hjálpræðisherinn gæti ekki fengið úthlutað nýrri lóð því hann hefði átt lóð fyrir í miðbæ Reykjavíkur.

Skólabókardæmi um klúður

Eyþór segir mál Fossvogsskóla vera skólabókardæmi um klúður.

„Má segja að þetta sé klúður í tveimur meginþáttum. Fyrst margra ára vanræksla á viðhaldi og svo algert úrræðaleysi í þrjú ár um hvernig taka eigi á vandanum. Börnin flakkandi á milli í óvissu á sama tíma og heimsfaraldur geisar. Þetta er stjórnlaust.“

Aðkoma borgarstjóra, Dags B. Eggertssonar, í málinu þykir Eyþóri ekki til marks um hugrekki. „Hann sést þegar allt er í lagi en þegar á bjátar hverfur hann bara. Borgarstjóri hefur ekkert sést í þessu máli.“

Eyþór óttast að skólinn verði ekki kominn í lag fyrir næsta vetur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert