Mál Fossvogsskóla tæknilegt en ekki pólitískt

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar mbl.is/Árni Sæberg

Það kom borgarstjórn í opna skjöldu hve mikið það kom foreldrum og kennurum á óvart að það þyrfti að brúa ákveðið bil frá því að skólastarf yrði hafið og fram að því að færanleg kennslurými yrðu tekin í gagnið, að sögn Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur, formanns borgarráðs og oddvita Viðreisnar. 

Hún telur að þar hafi borgin „misst boltann“ hvað upplýsingagjöf varðar.

„Í mars á þessu ári héldum við heilmikinn fund inni í borgarráði þar sem farið var yfir málið í heild sinni. Þá var ákveðið að verða við ósk foreldra um að Efla yrði fengin með í ítarlegri rannsóknir enda höfðu komið fram misvísandi niðurstöður,“ segir Þórdís Lóa. 

Ný verkefnastjórn var skipuð eftir fundinn og niðurstöður seinni rannsóknarinnar voru svo kynntar foreldrum sem sýndu ansi svarta mynd af ástandinu. Börnin kláruðu skólaárið í Korpuskóla. 

Upplýsingagjöf ábótavant

Að ósk foreldra var tekin ákvörðun um að halda nemendum í fyrsta til þriðja bekk í Fossvogsdalnum. Til þess þurfti að grípa til færanlegra kennslurýma. 

„Svo gerist það í sumar að það ferst fyrir að upplýsa foreldra um að stofurnar þurfi að fara í grenndarkynningu og því gæti mögulega komið tveggja til fjögurra vikna millibilsástand, sem við erum stödd í núna,“ segir Þórdís.

Á hún þá við þá stöðu að nemendur í 2. til 4. bekk Fossvogsskóla byrja skólaárið sitt í húsnæði Hjálpræðishersins. 

Mygla geti komið upp víða

Þórdís bendir á að mygla geti komið upp víða, ekki bara í skólunum. Reykjavík þurfi að vera búin undir að takast á við breytingu á starfsemi þegar upp koma rakaskemmdir og mygla. 

„Við þurfum einhvern meginferil. Þetta eru ekki bara skólar heldur geta líka verið hjúkrunarrými, félagsmiðstöðvar eða íbúðir.“

Mál Fossvogsskóla er tæknilegt en ekki pólitískt að mati Þórdísar og snýst um framkvæmdir, gott aðgengi barna að skóla, praktík og verkferla. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert